Gunnþór Ingvason og Bjarni Ólafur Birkisson að lokinni undirritun samningsins. Ljósm. Sigurður Steinn EinarssonÍ síðustu viku var undirritaður nýr styrktar- og auglýsingasamningur á milli Knattspyrnufélags Fjarðabyggðar (KFF) og Síldarvinnslunnar en Síldarvinnslan hefur lengi verið eitt þeirra fyrirtækja sem helst hafa stutt við bakið á starfsemi Knattspyrnufélagsins. Samningurinn gildir fyrir árið 2015.
 
Það voru þeir Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar og Bjarni Ólafur Birkisson stjórnarmaður í Knattspyrnufélaginu sem undirrituðu samninginn en hann felur í sér víðtækara samstarf félaganna en áður. Á komandi keppnistímabili verður merki Síldarvinnslunnar á keppnisbúningum allra liða Knattspyrnufélagsins og eins mun starfsfólki Síldarvinnslunnar bjóðast árskort Knattspyrnufélagsins á hagstæðum kjörum en árskortið gildir sem aðgöngumiði á alla leiki meistaraflokka karla og kvenna auk þess sem árskortshöfum er boðið upp á veitingar í hálfleik.
 
Að lokinni undirritun samningsins sagði Bjarni Ólafur að samningar eins og þessi væru ómetanlegir fyrir félag eins og KFF. „Það er svo mikilvægt að finna stuðning og áhuga í samfélaginu,“ sagði Bjarni. „Kostnaður við íþróttastarf er sífellt að aukast, ekki síst ferðakostnaður. Það er ánægjulegt að fyrirtæki eins og Síldarvinnslan hafi skilning á þeim aðstæðum sem við, forsvarsmenn félaganna, erum í þegar reynt er að halda starfseminni úti með myndarlegum hætti. Síldarvinnslan er að auka sinn stuðning með þessum samningi og það er svo sannarlega þakkarvert og til fyrirmyndar,“ sagði Bjarni að lokum.