Síldarvinnslan hlaut í dag umhverfisviðurkenningu Fjarðabyggðar 2016 en þetta er í fyrsta sinn sem sveitarfélagið veitir slíka viðurkenningu. Það var Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri sem veitti viðurkenninguna við athöfn sem fram fór í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði. Umhverfisviðurkenning var veitt í þremur flokkum og hlaut Síldarvinnslan hana í flokki fyrirtækja.
Auglýst var eftir tilnefningum til viðurkenninga í ágúst og september og var öllum sem áttu lögheimili í Fjarðabyggð heimilt að senda inn tilnefningar. Sérstök dómnefnd fékk það hlutverk að fjalla um tilnefningarnar og leggja mat á þær. Í dómnefndinni áttu sæti Freyr Ævarsson umhverfisfulltrúi Fljótsdalshéraðs, Sveinbjörn Hrafn Kristjánsson starfsmaður áhaldahúss Fljótsdalshéraðs og Anna Heiða Gunnarsdóttir garðyrkjufræðingur á Reyðarfirði.
Í umsögn dómnefndarinnar segir eftirfarandi um umhverfi Síldarvinnslunnar: „Viðurkenningin er veitt fyrir sérlega snyrtilegt umhverfi. Ásýnd húss og vinnusvæðis er stílhreint og öll umgengni til fyrirmyndar.“ Þá segir einnig í umsögninni að blómaker séu skemmtileg í stíl við húsnæði fyrirtækisins og mikið lagt í að viðhalda svæðinu snyrtilegu, blómabeðum og grasfleti. Þá er það mat dómnefndarinnar að fyrirtækið leggi sjáanlega mikinn metnað í blómlega og fallega ásýnd á starfssvæði sínu.
Stefnt er að því að Fjarðabyggð veiti umhverfisviðurkenningu árlega hér eftir.