Síldarvinnslan skrifaði í vikunni undir samning um kaup á nýju fræðslukerfi fyrir starfsmenn. Fyrir valinu varð kerfi sem heitir Eloomi, en fjölmörg fyrirtæki og stofnanir á íslenskum vinnumarkaði eru farin að nota það með góðum árangri. Kerfið býður upp á nýja möguleika til að skipuleggja fræðslu og koma námsefni á framfæri við notendur, óháð stað og stund. Notendur munu t.d. geta tekið námskeið í snjallsímunum sínum, í tölvu á vinnustöð eða heima hjá sér í hvaða snjalltæki sem hentar. 

„Þetta einfaldar málin gífurlega mikið“, segir Sigurður Ólafsson, verkefnastjóri, sem mun stýra innleiðingu kerfisins. „Í stað þess að þurfa að kalla fólk saman í sal getum við tryggt að allir fái viðeigandi þjálfun og upplýsingar hvar og hvenær sem er og geti kynnt sér efnið á sínum hraða og forsendum. Þetta einfaldar málin mjög þegar talsverður hluti starfsmanna starfar á vöktum eða á skipum félagsins. Við munum auðvitað ekki hætta að kalla fólk saman til að hittast, læra eitthvað nýtt og ræða málin, en þetta kerfi mun gera okkur kleyft að koma þekkingu á framfæri án þess. Við höfum séð það á þessum leiðinlegu Covid-tímum að fólk er fljótt að tileinka sér nýjungar á borð við þessa og Eloomi kerfið er einstaklega notendavænt. Covid-tíminn hefur líka kennt okkur hvað það er mikilvægt að hafa fjölbreyttar leiðir til að hafa samskipti við fólkið okkar þegar því fylgir skyndilega áhætta að hittast í alvörunni. Við munum með þessu nýja kerfi stíga stórt framfaraskref hvað tæknina varðar og svo munum við í kjölfarið uppfæra fræðsluáætlun fyrirtækisins í samstarfi við Austurbrú. Það mun hjálpa okkur verulega að efla fræðslu hjá fyrirtækinu að hafa nýtt kerfi til að halda utan um fræðslustarfið og bæta við það stafrænni miðlun efnis. Við ætlum að halda ótrauð áfram að gera gott fyrirtæki enn betra og öflugt fræðslustarf er mikilvægur liður í því,“ segir Sigurður að lokum.