Síldarvinnslan greiddi hæst opinber gjöld sjávarútvegsfyrirtækja á síðasta ári. Ríkisskattstjóraembættið hefur nýlega sent frá sér lista yfir þau fjörutíu fyrirtæki og stofnanir sem greiddu hæstu opinberu gjöldin á árinu. Síldarvinnslan er þar í 17. sæti og hæst sjávarútvegsfyrirtækja. Ef bankar og opinber fyrirtæki á listanum eru undanskilin er Síldarvinnslan í 5. sæti. Fram kemur á listanum að Síldarvinnslan greiddi 718.157.808 kr. í tekjuskatt og tryggingagjald á árinu 2017.
 
Ef tekið er tillit til veiðigjalda færist Síldarvinnslan enn ofar á lista yfir þau fyrirtæki sem greiða hæst opinber gjöld. Alls greiddi Síldarvinnslan veiðigjöld upp á 530 milljónir á síðasta ári þannig að fyrirtækið greiddi alls rúmlega 1.248 milljónir í skatta og veiðigjöld á árinu 2017.