Hinn 15. apríl sl. var skrifað undir samning sem felur í sér að Síldarvinnslan muni taka þátt í rekstri Sjávarútvegsskóla Austurlands eins og undanfarin ár. Það er Háskólinn á Akureyri sem annast skólahaldið en skólinn er ætlaður nemendum sem hafa nýlokið 8. bekk grunnskóla. Gert er ráð fyrir að kennt verði í eina viku á hverjum kennslustað en auk Neskaupstaðar verður kennt á eftirtöldum stöðum á Austfjörðum: Fáskrúðsfirði, Eskifirði, Seyðisfirði og Vopnafirði.
Umsjónarmaður Sjávarútvegsskólans er Guðrún Arndís Jónsdóttir en hún er forstöðumaður Sjávarútvegsmiðstöðvar Háskólans á Akureyri. Segir Guðrún að skipulag skólahaldsins sé vel á veg komið og meðal annars sé lokið við að ráða kennara til starfa. Mun kennslan á Austfjörðum fara fram í júní- og júlímánuði nk. Skólinn er starfræktur í samstarfi við vinnuskóla viðkomandi sveitarfélaga og munu vinnuskólarnir ásamt sjávarútvegsfyrirtækjum tryggja að nemendur haldi fullum launum á meðan kennsla fer fram.
Saga Sjávarútvegsskólans er athyglisverð en Síldarvinnslan kom skólanum á fót árið 2013 og bar hann þá nafnið Sjávarútvegsskóli Síldarvinnslunnar. Árið eftir var boðið upp á fræðsluna í allri Fjarðabyggð og var skólinn þá nefndur Sjávarútvegsskóli Fjarðabyggðar. Árið 2015 var fræðslan skipulögð um allt Austurland og var nafni skólans breytt í samræmi við það og hann nefndur Sjávarútvegsskóli Austurlands. Árið 2016 hóf Háskólinn á Akureyri að annast skólahaldið og hefur Sjávarútvegsskólinn nú einnig teygt anga sína til Norðurlands. Þá hefur Sjávarútvegsskóli Ísafjarðarbæjar einnig verið starfræktur að austfirskri fyrirmynd.