Í gær var undirritaður samningur á milli Síldarvinnslunnar og Samvinnufélags útgerðarmanna (SÚN) annars vegar og byggingarfyrirtækisins Nestaks ehf. hins vegar um þátttöku fyrrnefndu fyrirtækjanna í byggingu ellefu íbúða fjölbýlishúss við Sólbakka 2 í Neskaupstað. Samkvæmt samningnum fjármagnar Síldarvinnslan þrjár íbúðir í húsinu og SÚN fjármagnar fjórar.
Fyrsta skóflustungan að húsinu var tekin 28. september sl. og nú er unnið að gerð sökkla. Húsið verður gert úr steinsteyptum einingum og er ráðgert að byrjað verði á að reisa þær snemma í desembermánuði. Þá er áformað að framkvæmdum við húsið ljúki í lok næsta árs.
Íbúðirnar í húsinu eru 79,9 fermetrar að stærð, sex á efri hæð og fimm á neðri hæð. Á neðri hæðinni eru að auki geymslur fyrir allar íbúðirnar. Það er fasteignasalan Byr sem annast sölu íbúðanna. Verkefnið verður kynnt á fundi sem haldinn verður á Hótel Hildibrand í Neskaupstað fimmtudaginn 16. nóvember nk. klukkan átta og verður Elín Káradóttir frá fasteignasölunni Byr á fundinum.
Segja má að bygging umrædds húss sé austfirskt verkefni að nánast öllu leyti. Auk Nestaks koma eftirtalin fyrirtæki að verkinu: KJ Hönnun arkitektastofa, Efla hf. verkfræðistofa, MVA framleiðir steyptu einingarnar, Héraðsverk og Austurríki sáu um jarðvinnu, ISA Raf annast rafvinnu og Fjarðalagnir sjá um pípulagnir.