Stefán Már Guðmundsson og Gunnþór Ingvason eftir undirritun samningsins. Ljósm. Hákon Viðarsson.Síldarvinnslan hf. og Íþróttafélagið Þróttur hafa gert með sér nýjan styrktar- og auglýsingasamning og var samningurinn undirritaður í gær. Síldarvinnslan hefur lengi verið í hópi þeirra félaga sem stutt hafa hvað dyggilegast við bakið á Þrótti og stuðlað að því að unnt væri að halda úti öflugu íþróttastarfi í Neskaupstað.

Það voru þeir Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri  Síldarvinnslunnar og Stefán Már Guðmundsson formaður Þróttar sem undirrituðu samninginn. Stefán Már segir að þessi samningur skipti miklu máli fyrir Þrótt en hann felur í sér mánaðarlegar greiðslur sem renna beint til einstakra deilda félagsins og skapa þannig ákveðið öryggi í rekstri þeirra. Stefán segir einnig að ánægjulegt sé hve Þróttur njóti mikillar velvildar í Neskaupstað og komi það skýrt fram við gerð samninga sem þessa. Íbúarnir virðast kunna vel að meta starfsemi Þróttar og öflug fyrirtæki eru tilbúin að leggja félaginu lið með myndarlegum hætti.