Stefán Már Guðmundsson formaður Þróttar og Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar við undirritun samningsins.

Íþróttafélagið Þróttur og Síldarvinnslan hf. gerðu nýverið með sér nýjan styrktar- og auglýsingasamning en Síldarvinnslan hefur lengi verið í hópi þeirra félaga sem stutt hafa dyggilega við bakið á öflugu íþróttastarfi Þróttar.

Það voru þeir Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar og Stefán Már Guðmundsson formaður Þróttar sem undirrituðu samninginn.  Stefán Már segir að samningurinn við Síldarvinnsluna hafi mikla þýðingu fyrir Þrótt.  Hann feli í sér mánaðarlegar greiðslur sem renni beint til deilda íþróttafélagsins og skapi þannig ákveðið öryggi í hinni reglubundnu starfsemi.