Yngvar Orri Guðmundsson undirritar fyrsta samninginn. Ljósm. Hákon Ernuson

Síldarvinnslan hefur ákveðið að styðja starfsmenn til náms með því að veita þeim lán á meðan á námi stendur. Er þetta gert til að gera starfsmönnum kleift að taka sér leyfi frá störfum á meðan náminu er sinnt. Starfsmennirnir munu síðan endurgreiða fyrirtækinu lánið með mánaðarlegum greiðslum eftir að þeir hafa lokið námi og hafið störf á ný. Í upphafi er gert ráð fyrir að þeir starfsmenn sem stunda nám í vélstjórn og völdum iðngreinum eigi rétt á láni og eins þeir sem eru í stýrimannanámi. Ráðgert er að styðja einnig starfsmenn í fleiri völdum greinum.

Fyrsti samningurinn um lán af þessu tagi hefur þegar verið undirritaður og var hann gerður við Yngvar Orra Guðmundsson nema í vélstjórn en Yngvar Orri hefur starfað hjá Síldarvinnslunni frá sumrinu 2021. Heimasíðan ræddi við Yngvar Orra og spurði fyrst hvort samningurinn hefði skipt hann miklu máli. „Já, svo sannarlega. Það er ekki auðvelt að fara í nám þegar maður er kominn með fjölskyldu og húsnæði sem þarf að greiða af. Samningurinn, sem ég gerði við Síldarvinnsluna, er afar mikilvægur og í reynd ómetanlegur. Lánið, sem um ræðir, er vaxtalaust og í samfélagi nútímans eru vaxtalaus lán ekki víða í boði. Ég er afar þakklátur vinnuveitanda mínum að bjóða upp á samninginn og ég veit að þessi möguleiki á eftir að hvetja starfsmenn til náms. Ég vildi óska þess að fleiri fyrirtæki tækju Síldarvinnsluna til fyrirmyndar á þessu sviði því það mun án efa koma öllum vel, bæði viðkomandi starfsmönnum og fyrirtækjunum,“ segir Yngvar Orri.