Þórarinn Ívarsson og Gunnþór B. Ingvason undirrita samninginn

Á Sjávarútvegssýningunni, sem haldin var í byrjun júnímánaðar, undirrituðu Gunnþór B. Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, og Þórarinn Ívarsson, framkvæmdarstjóri Veraldarvina, samstarfssamning um hreinsun strandlengjunnar. Með samningnum verður Síldarvinnslan einn af aðalbakhjörlum Veraldarvina og hreinsunarverkefnisins á árinu 2022 og Veraldarvinir skuldbinda sig til að ganga allar fjörur Fjarðabyggðar og hreinsa upp allt plast sem þar er að finna og koma því í endurvinnslu eða förgun.

Þórarinn ívarsson segir að samningurinn við Síldarvinnsluna sé mjög mikilvægur fyrir hreinsunarverkefnið og starfsemi Veraldarvina. „Tilkoma samningsins styrkir starfið við hreinsun strandlengjunnar gríðarlega. Styrkurinn sem Síldarvinnslan veitir gerir okkur kleift að kaupa tæki sem nauðsynleg eru vegna hreinsunarstarfsins því ekki skortir okkur mannaflann. Sannleikurinn er sá að Veraldarvinir hafa fengið takmarkaða styrki frá ríki og fyrirtækjum til að sinna sínum störfum. Til þessa er það helst Bónus sem hefur styrkt starfsemina og núna upp á síðkastið hefur ríkið bætt dálítið í vegna strandhreinsana. Sjálfboðaliðar á vegum Veraldarvina hafa starfað við hreinsun strandlengjunnar síðastliðin 16 ár og á þeim tíma höfum við til dæmis unnið mikið í Fjarðabyggð. Árni Steinar Jóhannsson var á sínum tíma umhverfisstjóri sveitarfélagsins og hann lagði mikla áherslu á hreinsun strandlengjunnar. Á sl. 16 árum hafa 6.500 erlendir sjálfboðaliðar á vegum Veraldarvina starfað að umhverfismálum í Fjarðabyggð. Umhverfisverkefni Veraldarvina hafa verið allfjölbreytt. Auk hreinsunarstarfa hefur til dæmis trjám verið plantað í ríkum mæli og ávallt eru heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna á sviði umhverfismála kynnt. Alls hafa sjálfboðaliðar Veraldarvina unnið í 2,2 milljónir vinnustunda hér á landi og það munar um það,“ segir Þórarinn.