Frá vinstri, Jóna Árný Þórðardóttir framkvæmdarstjóri Austurbrúar, Dagmar Ýr Stefánsdóttir yfirmaður samskipta og samfélagsmála hjá Alcoa Fjarðaáli, Sigurður Ólafsson verkefnastjóri hjá Síldarvinnslunni (sem skrifaði undir sem staðgengill Hákonar Ernusonar), Ari Kristinn Jónsson rektor Háskólans í Reykjavík og Eyjólfur Guðmundsson rektor Háskólans á Akureyri

Í síðustu viku var skrifað undir samkomulag um „Gletting“, nýjan hvatningarstyrk atvinnulífsins fyrir nemendur í Háskólagrunni HR . Alcoa-Fjarðaál, Síldarvinnslan, Loðnuvinnslan, Eskja og Laxar fjármagna styrkinn sameiginlega til tveggja ára en fulltrúar þeirra hafa tekið virkan þátt í fjármögnun og stefnumótum háskólaverkefnisins á Austurlandi. Þeir nemendur sem ljúka fullu námi á einu ári með hæstu einkunn hljóta styrkinn, sem nemur um 500.000 kr. á mann og er gert ráð fyrir að einn til tveir nemendur geti hlotið styrkinn á hverju ári.

„Þetta er fyrst og fremst hugsað til að hvetja nemendur til dáða“, segir Hákon Ernuson, starfsmannastjóri Síldarvinnslunnar, sem setið hefur í undirbúningshópi verkefnisins. „Það er gífurleg jákvætt skref fyrir samfélagið að svona nám skuli nú verða í boði hér á svæðinu og að þarna sé komin fær leið fyrir fólk sem hefur áhuga á að skella sér í háskólanám en hefur ekki lokið stúdentsprófi eða vantar þekkingargrunninn til að hefja nám. Við vonum að styrkurinn hvetji einhverja til að taka skrefið og veki athygli. Svo þarf auðvitað að koma í ljós hver aðsóknin verður, en við erum bjartsýn.

Hér á svæðinu eru mjög góð tækifæri fyrir tæknimenntað fólk og háskólagrunnurinn miðar að því að undirbúa fólk undir nám í tæknifræði eða tölvunarfræði, þótt hann gæti reyndar nýst í önnur fög, svo sem viðskiptafræði. Það er engin tilviljun að iðnfyrirtækin hér á svæðinu eru þátttakendur í verkefninu. Með síaukinni tæknivæðingu í vinnslu og veiðum verður til framtíðar gífurlega mikilvægt að við getum fengið tæknimenntað fólk til starfa hjá okkur. Við teljum líka að þátttaka iðnaðarins á svæðinu geti skapað náminu sérstöðu og mögulega boðið nemendum upp á reynslu sem þeir myndu ekki fá annarsstaðar“, segir Hákon.

Rektorar háskólanna sem að verkefninu koma, taka undir þetta og segja aðkomu fyritækjanna til marks um mikilvægan og víðtækan samfélagslegan stuðning við uppbyggingu háskólanáms á svæðinu. Námið verður samstarfsverkefni Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Akureyri og verður fyrirkomulag þess sveigjanlegt, blanda af staðbundnu námi og fjarnámi, með aðstöðu í húsnæði Austurbrúar í Fróðleiksmolanum á Reyðarfirði þar sem verkefnastjóri námsins verður einnig og aðstoðar nemendur, ásamt því að taka þátt í kennslu og verkefnum. Stefnt er að því að byggja upp skemmtilega stemmingu í nemendahópnum og stuðla að því að nemendur kynnist og geti leitað stuðnings hver hjá öðrum og unnið saman, en það eykur líkur á árangri í námi og gerir upplifunina ánægjulegri.

Umsóknarfrestur um námið er 15. júní og hvetur Síldarvinnslan áhugasama til að sækja um.

Hér er slóð á upptöku af kynningarfundi um námið sem nýverið fór fram á Reyðarfirði: https://vimeo.com/559096025

Nánari upplýsingar um námið má einnig nálgast á heimasíðu Háskólans í Reyjavík: https://www.ru.is/namid/haskolagrunnur/

Áhugasamir eru hvattir til að hafa samband við Hrönn Grímsdóttur námsráðgjafa. Sími: 470-3833 / 891-9913 Netfang:

Nánari upplýsingar um verkefnið veitir einnig Hafþór Eide Hafþórsson verkefnastjóri. Sími: 847-0013 Netfang: