DSC02950 a

Við undirritun styrktarsamningsins. Talið frá vinstri: Eiríkur Þór Magnússon varaformaður G.N., Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar og Gunnar Ásgeir Kalrsson formaður G.N. Ljósm.: Hákon Ernuson.

                Í dag var undirritaður nýr styrktarsamningur á milli Síldarvinnslunnar og Golfklúbbs Norðfjarðar. Samningurinn er til þriggja ára og felur meðal annars í sér að Síldarvinnslan styrkir sérstaklega unglingastarf klúbbsins. Þá mun klúbburinn standa fyrir golfmóti um verslunarmannahelgina sem kennt verður við Neistaflug og Síldarvinnsluna.

                Samninginn undirrituðu Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar og Gunnar Ásgeir Karlsson formaður Golfklúbbs Norðfjarðar. Gunnþór sagði við það tækifæri að Síldarvinnslan væri stolt yfir því að styrkja starfsemi klúbbsins enda væri þar vel að öllum málum staðið. Gunnar Ásgeir Karlsson sagði að það væri ómetanlegt fyrir klúbbinn að eiga jafn sterka stuðningsaðila og Síldarvinnslan væri. „Stuðningur við unglingastarf klúbbsins er ómetanlegt og það er mikilvægt fyrir framtíð golfiðkunar á staðnum. Það hefur líka  skapast sú skemmtilega hefð á golfmótinu um verslunarmannahelgina að Síldarvinnslan býður þá upp á síldarhlaðborð fyrir keppendur og gesti. Þannig birtist samstarf Síldarvinnslunnar og klúbbsins í ýmsum myndum. Ég vil fyrir hönd klúbbsins koma á framfæri innilegum þökkum til Síldarvinnslunnar fyrir þann myndarlega styrk sem hún hefur veitt klúbbnum á undanförnum árum. Framlag fyrirtækisins er svo sannarlega höfðinglegt,“ sagði Gunnar Ásgeir að lokum.