Síldarvinnslan og Íþróttafélagið Huginn á Seyðisfirði hafa nýverið gert styrktar- og auglýsingasamning sín á milli. Samningurinn kveður á um að Síldarvinnslan styrki félagið og að félagið auglýsi nafn fyrirtækisins með ákveðnum hætti á keppnisdögum.

Guðjón Harðarson, fulltrúi Hugins, segir að styrkur Síldarvinnslunnar sé ómetanlegur fyrir félagið. Allt íþróttastarf byggi í reyndinni á velvild og skilningi styrktaraðila og sífellt sé erfiðara að halda úti slíku starfi vegna síaukins ferðakostnaðar. „Flugfargjöld hafa hækkað mikið að undanförnu og þau eru allt að drepa,“ sagði Guðjón. „Við hjá Hugin erum afskaplega þakklát þeim fyrirtækjum og stofnunum sem styrkja starfsemi félagsins og ekki má gleyma því að bæjarbúar láta sitt ekki eftir liggja. Reksturinn er afar þungur en það er ekkert annað að gera en að halda áfram. Meginatriðið er þó þetta: Flugfargjöld eru alltof há og gera alla starfsemi íþróttafélaga á landsbyggðinni erfiða en öðrum kostnaðarliðum starfseminnar er haldið í lágmarki eins og frekast er kostur,“ sagði Guðjón að lokum.