Ívar Sæmundsson formaður KFF og Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar. Ljósm. Hákon ErnusonÍvar Sæmundsson formaður KFF og Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar. Ljósm. Hákon ErnusonHinn 25. febrúar sl. var undirritaður nýr styrktar- og auglýsingasamningur á milli Síldarvinnslunnar og Knattspyrnufélags Fjarðabyggðar (KFF). Síldarvinnslan hefur lengi verið í hópi þeirra fyrirtækja sem helst hafa stutt við bakið á kraftmiklu starfi Knattspyrnufélagsins.
 
Það voru þeir Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar og Ívar Sæmundsson formaður Knattspyrnufélagsins sem undirrituðu samninginn. Ívar segir að samningur sem þessi sé afar mikilvægur fyrir Knattspyrnufélagið og það sé ómetanlegt að finna þann jákvæða hug sem forsvarsmenn Síldarvinnslunnar beri til íþróttastarfsins í byggðarlaginu. „Hjá okkur er eilíf barátta að halda starfseminni úti fyrst og fremst vegna gífurlegs ferðakostnaðar. Þó svo að ítrasta aðhalds sé gætt þá er kostnaðurinn við ferðalögin óheyrilegur fyrir félögin hér eystra en í ár hjálpar það til að þrjú þeirra eiga lið í 1. deild karla, en það hefur ekki gerst áður,“ sagði Ívar. „Fyrir okkur er afar mikilvægt að finna þá velvild sem ríkir í garð Knattspyrnufélagsins hjá fyrirtækjum í Fjarðabyggð og samningurinn við Síldarvinnsluna er einmitt vitnisburður um slíka velvild,“ sagði Ívar að lokum.