Gunnþór Ingvason og Ívar Sæmundsson undirrituðu styrktarsamninginn. Ljósm. Hákon Viðarsson.Föstudaginn 30. maí var undirritaður nýr styrktar- og auglýsingasamningur á milli Knattspyrnufélags Fjarðabyggðar (KFF) og Síldarvinnslunnar en Síldarvinnslan hefur lengi verið í hópi þeirra fyrirtækja sem helst hafa stutt við bakið á kraftmiklu starfi Knattspyrnufélagsins.

Það voru þeir Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar og Ívar Sæmundsson formaður Knattspyrnufélagsins sem undirrituðu samninginn. Ívar segir að samningurinn við Síldarvinnsluna skipti miklu máli og það sé mikilvægt að finna að fyrirtæki á borð við Síldarvinnsluna kunni að meta það starf sem Knattspyrnufélagið sinnir. „Það er eilíf barátta hjá félagi eins og okkar að halda starfseminni úti og kostnaðurinn vex ár frá ári,“segir Ívar. „Helstu útgjöld félagsins eru ferðakostnaður. Sem dæmi má nefna að í síðustu viku lék meistaraflokkur karla bikarleik á Ísafirði við BÍ/Bolungarvík og ferðakostnaður vegna leiksins nam einni milljón króna. Þó svo að ítrasta aðhalds sé gætt þá er kostnaðurinn óheyrilegur.“ Fyrir okkur sem stöndum í að reka félagið er afar mikilvægt að finna þann stuðning og þá velvild sem ríkir í garð þess hjá fyrirtækjum í Fjarðabyggð og samningurinn við Síldarvinnsluna er einmitt tákn um slíkan stuðning.“