Mánudaginn 3. júní var undirritaður nýr styrktar- og auglýsingasamningur á milli KFF (Knattspyrnufélags Fjarðabyggðar) og Síldarvinnslunnar en Síldarvinnslan hefur lengi verið í hópi þeirra félaga og fyrirtækja sem helst hafa stutt við bakið á öflugu starfi KFF.
Það voru þeir Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar og Bjarni Ólafur Birkisson formaður KFF sem undirrituðu samninginn. Bjarni Ólafur segir að samningurinn við Síldarvinnsluna skipti KFF afar miklu máli. Helstu útgjöld félagsins séu ferðakostnaður og flugfargjöld hafi hækkað mikið að undanförnu, til dæmis um þriðjung nú á milli ára. Þessi kostnaður geri KFF sífellt erfiðara að starfa þó ítrustu hagsýni sé gætt en við slíkar aðstæður sé einmitt afar mikilvægt að njóta dýrmæts stuðnings og velvildar félaga og fyrirtækja eins og Síldarvinnslunnar.
„Það er ávallt ánægjulegt að undirrita samning eins og þennan“, sagði Bjarni Ólafur,“því þá sést svart á hvítu að störf okkar hjá KFF eru mikils metin í samfélaginu“.