Stúlkur úr 7. og 8. bekk Nesskóla ásamt Kristínu Tómasdóttur. Ljósm. Hildur Ýr GísladóttirDagana 10. og 11. febrúar sl. var haldið sjálfstyrkingarnámskeið fyrir stúlkur í Neskaupstað. Námskeiðið var ætlað stúlkum á aldrinum 13-16 ára (7.-10. bekkur grunnskóla) og var það sótt af öllum stúlkum á þessum aldri sem áttu þess kost eða alls 48. Það má því segja að 100% mæting hafi verið á námskeiðið. Það voru Síldarvinnslan, Samvinnufélag útgerðarmanna og félagsmálanefnd Fjarðabyggðar sem styrktu námskeiðshaldið en Hildur Ýr Gísladóttir hafði forgöngu um að námskeiðið var haldið.

Leiðbeinandi á námskeiðinu var Kristín Tómasdóttir en hún er menntuð í sálfræði og kynjafræði, hefur ritað þrjár bækur fyrir unglingsstúlkur og fylgt þeim eftir með sjálfstyrkingarnámskeiðum. Kristín hefur einnig ritað samsvarandi bók fyrir pilta ásamt Bjarna Fritzsyni og kom hún út fyrir síðustu jól.

Stúlkur úr 9. og 10. bekk Nesskóla ásamt Kristínu Tómasdóttur.  Ljósm. Hildur Ýr GísladóttirNámskeiðið var haldið í Nesskóla og þótti heppnast afar vel. Haldnir voru fyrirlestrar, unnin verkefni, settir upp leikþættir, eldað og borðað. Leiðbeinandinn var ánægður með hvernig til tókst og ræddi um hversu gaman væri að vinna með svona flottum hópi.

Styrking sjálfsmyndar er mikilvæg fyrir alla unglinga í nútímasamfélagi. Góð eða jákvæð  sjálfsmynd hefur mikil áhrif á hvernig tekist er á við alla þætti lífsins eins og nám, störf, félagslegan þrýsting og hættur á borð vímuefni.