Gunnþór B. Ingvason forstjóri Síldarvinnslunnar og Eysteinn Þór Kristinsson fráfarandi formaður Þróttar við undirritun samningsins.
Ljósm. Smári Geirsson

Hinn 15. júní sl. var undirritaður styrktar- og auglýsingasamningur sem Síldarvinnslan hf. hefur gert við Íþróttafélagið Þrótt í Neskaupstað. Samningurinn felur í sér mánaðarlegar greiðslur Síldarvinnslunnar til félagsins og á móti mun félagið auglýsa fyrirtækið með ákveðnum hætti. Síldarvinnslan hefur ávallt stutt við bakið á íþrótta- og æskulýðsstarfi og er samningurinn við Þrótt mikilvægur þáttur í þeim stuðningi.

Fráfarandi formaður Þróttar, Eysteinn Þór Kristinsson, undirritaði samninginn fyrir hönd félagsins og sagði hann að slíkur samningur væri Þrótti afar mikilvægur. „Það var mitt síðasta verk í formannsstóli að undirrita þennan samning og það var ánægjulegt lokaverkefni. Nú hefur Petra Lind Sigurðardóttir tekið við formannsembættinu í Þrótti þannig að það er í góðum höndum. Staðreyndin er sú að styrktaraðilar eins og Síldarvinnslan skipta sköpum fyrir Þrótt og það er afskaplega dýrmætt að eiga fyrirtæki í samfélaginu sem hafa skilning á mikilvægi íþrótta- og æskulýðsstarfs. Síðasta ár hefur verið erfitt vegna covid-faraldursins og ýmsir styrktaraðilar hafa jafnvel hrokkið úr skaftinu. Þá er sérstaklega mikilvægt að eiga fyrirtæki eins og Síldarvinnsluna sem er bæði sterkt og skilningsríkt. Sá samningur sem hér um ræðir tengist barna- og unglingastarfi Þróttar. Að auki styrkir Síldarvinnslan sérstaklega meistaraflokkslið Þróttar í blaki og meistaraflokkslið Fjarðabyggðar í knattspyrnu. Staðreyndin er sú að það væri ekki unnt að halda úti kraftmiklu íþrótta- og æskulýðsstarfi ef ekki væru til staðar fyrirtæki á borð við Síldarvinnsluna sem styrkja starfsemina myndarlega ár eftir ár. Það hefur Síldarvinnslan gert í áratugi og það er alltaf jafnánægjulegt að eiga samskipti við fyrirtækið,“ segir Eysteinn.