DSC039611

Stefán Már og Gunnþór við undirritun samningsins. Ljósm: Smári Geirsson

                Miðvikudaginn 24. febrúar sl. var styrktar- og auglýsingasamningur á milli Síldarvinnslunnar hf. og Íþróttafélagsins Þróttar undirritaður á skrifstofum Síldarvinnslunnar.  Hér er um að ræða endurnýjun á samningi sem verið hefur í gildi undanfarin ár. Það voru þeir Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar og Stefán Már Guðmundsson formaður Þróttar sem undirrituðu samninginn.

                Gunnþór sagði í samtali við heimasíðuna að Síldarvinnslan væri stolt af því að vera einn af helstu styrktaraðilum Þróttar. „Starfsemi félagsins er fjölbreytt og kraftmikil og það gegnir mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Í reyndinni er heiður að fá að leggja sitt af mörkum til þess að starfsemi félagsins haldi áfram að vera jafn gróskumikil og hingað til,“ sagði Gunnþór.

                Stefán Már Guðmundsson formaður Þróttar sagði að samningurinn skipti félagið miklu máli. „Forsendan fyrir öflugri starfsemi Þróttar er sú velvild sem ríkir í garð félagsins í samfélaginu. Þróttur vill bjóða börnum og ungmennum upp á góða og faglega þjálfun í öllum þeim greinum sem félagið sinnir og það er í reynd samfélagsleg nauðsyn að halda úti metnaðarfullu íþróttastarfi. Fyrir Þrótt er algerlega ómetanlegt að eiga fyrirtæki á borð við Síldarvinnsluna sem sýna félaginu áhuga og skilning. Stuðningur eins og sá sem felst í samningnum við Síldarvinnsluna er stórkostlegur fyrir samfélagið allt og það er gleðilegt að heyra að forsvarsmenn Síldarvinnslunnar telja að þeim fjármunum sem ráðstafað er til að styrkja Þrótt sé vel og skynsamlega varið,“ sagði Stefán.