Á dögunum samdi Síldarvinnslan við fyrirtækið Betri svefn um að ráðist yrði í svokallaða svefnvottun. Svefnvottunin gengur út á fræðslu um svefn, skimun fyrir svefnvanda og aðgang að úrræðum fyrir þá sem glíma við slíkan vanda. Fyrirtæki sem fara í gegnum slíkt ferli fá vottun frá Betri svefni sem staðfestir að fyrirtækið hafi sýnt slíkt frumkvæði í svefnmálum. Svefnvottunin er hluti af heilsueflingarverkefni Síldarvinnslunnar, sem staðið hefur yfir frá síðasta hausti.
Sérfræðingurinn á bak við svefnvottunina er Norðfirðingurinn Dr. Erla Björnsdóttir, en hún er sennilega þekktasti svefnsérfræðingur landsins og ötull talsmaður bættra svefnvenja. Mikilvægi svefns er sífellt betur staðfest með rannsóknum og æ ljósara verður að ófullnægjandi svefn getur haft fjölþætt neikvæð áhrif á heilsu. Heimasíðan ræddi við Sigurð Ólafsson verkefnastjóra mannauðs og spurði hvernig svefnvottunarferlið hefði gengið. „Þetta gekk bara mjög vel, en Erla og Inga Rún hjá Betri svefni eru algerir fagmenn á sínu sviði. Fjöldi starfsmanna horfði á fyrirlestrana, sem fóru fram bæði á íslensku og ensku og þátttaka í könnuninni var svipuð og hjá sambærilegum fyrirtækjum, þótt við hefðum gjarnan viljað fá hærra svarhlutfall. Svarhlutfalið var 37%, eða akkúrat 100 manns. Því er ekki hægt að alhæfa með fullri vissu um stöðu alls starfsmannahópsins hvað svefn varðar, en þetta eru samt áhugaverðar niðurstöður,“ segir Sigurður.
En hverjar eru helstu niðurstöðurnar?
„Það var mest sláandi að allt of margir sofa of lítið, eða minna en sex tíma og næstum helmingur þeirra sem svöruðu taldi svefnvandamál hafa neikvæð áhrif á daglegt líf. Við sjáum líka mun á dagvinnu og vaktavinnufólki og eru svefnvandamálin mun algengari hjá vaktavinnufólkinu“, segir Sigurður.
En kemur á óvart að þarna mælist munur?
„Nei, alls ekki“, segir Sigurður. „Þetta er þekktur fylgifiskur vaktavinnu og er ástæða þess að slík vinna hentar sumum illa. Þeir sem vinna vaktavinnu þurfa að huga enn betur að svefni en aðrir og setja hann í eins mikinn forgang og hægt er. Þetta er sérlega mikilvægt þegar fólk vinnur næturvaktir, en það er hægt að gera fjölmargt til að auka líkurnar á því að geta sofið eftir næturvakt. Helstu ráðin eru að minnka koffínneyslu (sem hefur mjög slæm áhrif á svefn), sérstaklega á síðari hluta vaktar og það sama á við um nikótín, sem er örvandi. Gott er að setja upp dökk sólgleraugu á leið heim af vaktinni og forðast mikla birtu (t.d. frá sjónvarpi eða símaskjá). Fara svo beint í háttinn þegar heim er komið og forðast líkamlega áreynslu. Eins er gott að forðast að borða þungan eða brasaðan mat og borða aðal máltíð vaktarinnar á miðri vakt, en fá sér svo kannski eitthvað létt snarl þegar langt er liðið á vaktina. Svo er auðvitað mikilvægt að huga að svefnumhverfinu og reyna að gera það eins heppilegt og hægt er, hafa svefnhverbergið eins dimmt og hægt er (eða nota svefngrímu), hafa hitastigið í svalari kantinum og reyna að lágmarka truflanir frá umhverfinu með því til dæmis að biðja aðra um að sýna tillitssemi, slökkva á farsíma (eða setja á flugstillingu) og taka heimasíma úr sambandi. Eins getur verið gott að sofa með eyrnatappa ef fólk er viðkvæmt fyrir hávaða“, segir Sigurður.
„Ég geri mér grein fyrir að það getur kostað einhverjar lífstílsbreytingar að bæta svefn, en þær breytingar eru algerlega þess virði. Bættur svefn bætir lífsgæði stórlega og hefur fjölþætt jákvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu. Það er umhugsunarvert og í raun mestu vonbrigðin í þessu verkefni og það voru mjög fáir starfsmenn sem vildu nýta sér úrræðið sem var í boði, sem er vefmeðferð hjá Betri svefni þar sem unnið er með bæði hugræna þætti og svefnhegðun. Þetta er meðferð sem hefur gefið mjög góða raun og kostar 24.900 kr. ef fólk væri að greiða úr eigin vasa og því finnst mér pínu vonbrigði að áhuginn skuli ekki vera meiri. 48% svarenda segja svefnvandamál hafa neikvæð áhrif á daglegt líf sitt. Það eru 48 einstaklingar. Aðeins tveir af þessum 48 hafa skráð sig í meðferðina. Ég veit
ekki hvort hinir 46 hafa bara sætt sig við það að sofa illa, en mig langar bara að ítreka við þetta fólk að það er hægt að stórbæta svefn með því að þiggja þessa meðferð og leggja á sig smá vinnu við að breyta svefnvenjum. Það þarf samt að bera sig eftir björginni!“, segir Sigurður að lokum.
Þeir sem vilja skrá sig í svefnmeðferð Betri svefns er bent á að drífa í að senda póst á og gefa sig fram sem starfsmenn Síldarvinnslunnar og er meðferðin þá endurgjaldslaus.