Sr. Sigurður R. Ragnarsson formaður Hollvinasamtakanna og Stefán Þorleifsson fyrrverandi forstöðumaður Fjórðungssjúkrahússins vígja nýja sneiðmyndatækið með formlegum hætti. Ljósm. Þórhildur Eir Í gær fór fram formleg afhending á þeim tækjabúnaði sem Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað hefur verið færður að gjöf á árinu 2012 og það sem af er árinu 2013.  Guðbjartur Hannesson ráðherra velferðarmála veitti búnaðinum móttöku.  Á umræddu tímabili hefur sjúkrahúsið tekið á móti gjöfum að verðmæti tæplega 71 milljón króna.  Stærsta einstaka tækið sem um ræðir er nýtt tölvusneiðmyndatæki að verðmæti 45 milljónir.  Ýmsir komu að því að fjármagna kaupin á tækinu og lagði Síldarvinnslan 23 milljónir króna til verkefnisins.

Fyrirtæki og félagasamtök í Neskaupstað og á Austurlandi hafa svo sannarlega veitt sjúkrahúsinu góðan stuðning á undanförnum árum og þar hafa hin öflugu Hollvinasamtök stofnunarinnar gjarnan verið í broddi fylkingar.  Íbúunum í Neskaupstað og Austurlandi er fulljóst hve mikilvægt það er fyrir samfélagið að þar starfi vel búið sjúkrahús sem veitir góða og fjölþætta þjónustu og því vilja þeir sýna stofnuninni velvild og ræktarsemi með gjöfum sínum og stuðningi.