• Veiðar og vinnsla á loðnu gengu heilt yfir vel þrátt fyrir erfið skilyrði og það næðist ekki að veiða allan kvótann.
  • Markaðsskilyrði hafa verið hagstæð fyrir nánast allar afurðir fyrirtækisins.
  • Mikil framleiðsla á ársfjórðungnum og birgðastaða há.
  • Stríð braust út, skapaði mikla óvissu.
  • Uppbygging fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað gengur vel.

Helstu niðurstöður úr fjárhagsuppgjöri tímabilsins

  • Hagnaður tímabilsins var 27,5 m USD
  • Rekstrartekjur voru 100,6 m USD og hækkuðu um 48,2 m USD frá sama tímabili í fyrra.
  • EBITDA var 32,5 m USD eða 32,3%.
  • Heildareignir samstæðunnar í lok tímabilsins námu 672,0m USD og eiginfjárhlutfall var 67%.

Rekstur

Tekjur á fyrsta ársfjórðungi námu 100,6m USD samanborið við 52,4m USD á sama tímabili í fyrra. Rekstratekjur jukust þannig um 48,2m USD eða um 92% á milli tímabilanna. Tekjuaukningin skýrist fyrst og fremst af mun stærri loðnuvertíð en árið áður. Rekstarhagnaður eykst um 6,4m USD á milli tímabilanna. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 32,5m USD eða 32,3% af rekstrartekjum, en var 19,9m USD eða 37,9% á fyrsta ársfjórðungi 2021. Þess má geta að mikil framleiðsla var á fyrsta ársfjórðungi og er birgðastaða því há í lok tímabilsins og mun meiri en á sama tíma í fyrra.

Hagnaður fyrir tekjuskatt var 34,9m USD samanborið við 25,2m USD á fyrsta fjórðungi 2021. Tekjuskattur var 7,5m USD og hagnaður fyrsta ársfjórðungs 2022 því 27,5m USD samanborið við 21,1m USD tap fyrsta fjórðungs 2021.

Efnahagur

Heildareignir námu 672,0m USD í lok mars 2022. Þar af voru fastafjármunir 482,2m USD og veltufjármunir 189,8m USD.

Aukning á veltufjármunum á tímabilinu skýrist helst með auknum birgðum og kröfum upp á 28,5m USD. Aukning fastafjármuna stafa af stærstum hluta vegna fjárfestinga í nýrri hrognavinnslu og stækkun fiskimjölsverksmiðju í Neskaupstað.

 Fjárhagsstaða félagsins er sterk og nam eigið fé 450,6m USD. Eiginfjárhlutfall var 67% í lok tímabilsins eða það sama og í lok árs 2021.

Heildarskuldir og skuldbindingar félagsins voru 221,4m USD og hækkuðu um 9,8m USD frá áramótum. Vaxtaberandi skuldir voru 118,6m USD í lok tímabilsins og lækkuðu um 4,7m USD frá áramótum.

Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri nam 8,2m USD á fyrsta ársfjórðungi 2022 en var 9,3m USD á fyrsta fjórðungi 2021. Fjármögnunarhreyfingar voru 9,8m USD og handbært fé í lok tímabilsins nam 74,8m USD.

Meginniðurstöður í íslenskum krónum á fyrsta ársfjórðungi 2022

Séu niðurstöður rekstrarreiknings tímabilsins reiknaðar í íslenskum krónum á meðalgengi þess (1 USD=128,29 kr) voru rekstrartekjur 12,9 milljarðar, EBITDA 4,2 milljarðar og hagnaður 3,5 milljarðar. Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar í íslenskum krónum á gengi 31. mars 2022 (1 USD=127,92 kr) voru eignir samtals 86,0 milljarðar, skuldir 28,4 milljarðar og eigið fé 57,6 milljarðar.

Samþykkt árshlutareiknings

Árshlutauppgjör fyrsta ársfjórðungs 2022 var samþykkt á stjórnarfundi Síldarvinnslunnar 25. maí 2022. Árshlutareikningurinn er í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS- International Financial Reporting Standards).

Kynningarfundur 25. maí 2022

Rafrænn kynningarfundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta verður haldinn á vefstreymi miðvikudaginn 25. maí klukkan 16:30. Streymið verður aðgengilegt á vefsíðu Síldarvinnslunnar https://svn.is/fjarfestar/streymi/. Streymið verður einnig aðgengilegt á streymisrás Síldarvinnslunnar á youtube Þá verður hægt að senda spurningar á netfangið  og reynt verður að svara þeim á kynningarfundinum eftir fremsta megni.

Frá forstjóra

Reksturinn gekk vel á fyrsta ársfjórðungi og var framleitt mikið magn afurða í vinnslum félagsins. Það hefur mikið mætt á starfsfólki bæði til sjós og lands. Loðnuvinnsla var nánast samfelld frá áramótum til 25. mars í fiskimjölsverksmiðjum félagsins og hefur síðan haldið áfram í kolmunna. Skip félagsins fiskuðu yfir 80 þúsund tonn á fjórðungnum og voru framleidd tæp 51 þúsund tonn af afurðum.

Það er ánægjulegt að vera kominn á þann stað aftur að geta hitt fólk og slakað á sóttvarnaraðgerðum. Starfsmenn munu fagna saman á haustmánuðum með borgarferð þar sem allir munu gera sér glaðan dag.

Loðnusprengjan sem við fengum í fangið á haustmánuðum sprakk í andlitið á okkur.  En veðurfar og göngumynstur loðnunnar var okkur erfitt.  Loðnan kom mun dreifðari upp að landinu þannig að meira var haft fyrir veiðunum.  Auk þess sem veður voru okkur ekki hagfelld á mikilvægasta tímanum.  Þessir þættir valda því að ekki tókst að veiða allan kvótann sem var gefinn út.  En þrátt fyrir að kvótar næðust ekki var þetta frábær vertíð, mikil verðmæti voru unnin og verð fyrir afurðir eru góð.  Hærri verð en áætlanir gerðu ráð fyrir vega að hluta til upp þann kvóta sem ekki náðist að nýta.

Markaðir fyrir framleiðsluvörur félagsins eru sterkir og verð víða í sögulegu hámarki. Má þar sérstaklega nefna markað fyrir sjófrystar afurðir ásamt mjöl- og lýsismörkuðum.

Þrátt fyrir áfallið sem skall á með innrás  Rússa í Úkraínu hefur tekist að spila úr málum þar og viðskipti halda áfram við Úkraínu. Náðst hefur lausn á þeirri kröfu sem við áttum þar útistandandi.

Ýmsar blikur eru á lofti í heimsmálunum, vextir eru hækkandi í heiminum, flestir kostnaðarliðir að hækka mikið. Þrýstingur verður væntanlega á íslensku krónuna.  Vegna þessa þurfum við að halda vel á spilunum. Við erum engu að síður bjartsýn með komandi mánuði.

Með kvótakerfi í fiskveiðum hefur okkur lánast að auka verðmæti úr auðlindinni með sjálfbærum hætti. Er það lán okkar Íslendinga hversu vel hefur tekist til. Það er mikilvægt nú á tímum þegar ýmsir ráðamenn heimsins eru farnir að vara við matvælaskorti vegna átakanna í Úkraínu.

Efnahagur félagsins er sterkur. Undanfarin ár hefur verið fjárfest í endurnýjun og uppbyggingu félagsins. Sjávarútvegur er sveiflukenndur og því er mikilvægt að fyrirtækin séu fjárhagslega sterk til að geta brugðist við sveiflum með skynsamlegum hætti.

Fjárhagsdagatal
2. Ársfjórðungur 2022 – 25. ágúst 2022
3. Ársfjórðungur 2022 – 24. nóvember 2022
Ársuppgjör 2022 – 9 mars 2023

Nánari upplýsingar
Gunnþór B. Ingvason, forstjóri