Dr. Erla Björnsdóttir

Í næstu viku hefst metnaðarfullt svefnverkefni hjá Síldarvinnslunni. Verkefnið felst í því að bjóða starfsfólki upp á fræðslu um svefn og svo aðstoð fyrir þá sem glíma við svefnvanda. Samið var við Dr. Erlu Björnsdóttur hjá Betri svefni um framkvæmd verkefnisins, en Erla er Norðfirðingur og þekktasti svefnsérfræðingur landsins. Sigurður Ólafsson, verkefnastjóri mannauðs, hafði þetta um verkefnið að segja:

„Við höfum verið í heilsueflingarverkefni í vetur þar sem við fræðum okkar fólk um hinar ýmsu hliðar heilsunnar og bjóðum svo niðurgreiddan aðgang að úrræðum fyrir þá sem vilja. Áherslan í haust var á hreyfingu og næringu, en nú er komið að andlegu hliðinni og þar er svefninn lykilatriði. Svefninn hefur mikil áhrif á andlega og líkamlega heilsu og því skiptir miklu máli að við reynum að sofa nóg og fá góðan svefn. Það eru hins vegar mjög margir í vandræðum með svefn. Rúmlega þriðjungur Íslendinga sefur skemur en 6 klukkustundir á nóttu, sem getur haft fjölþættar neikvæðar afleiðingar fyrir andlega og líkamlega heilsu, auk þess að draga úr frammistöðu í starfi og auka slysahættu stórlega. Mjög margir Íslendingar eru því í vandræðum með svefn og við eigum heimsmet í notkun svefnlyfja, en svefnlyf virka í besta falli sem skammtímalausn, auk þess að vera ávanabindandi og hafa fullt af aukaverkunum. Talsverður hluti okkar fólks vinnur á ýmsum tímum sólarhrings bæði til lands og sjávar og því er líklegt að margir í starfsmannahópnum glími við vandamál tengd svefni. Það er sérlega mikilvægt að gera það sem hægt er til að sofa nóg ef svefninn er óreglulegur vegna vaktavinnu eða breytilegs vinnutíma. Það er því tvímælalaust tilefni til að reyna að hjálpa fólki með þetta“, segir Sigurður. En hvernig mun verkefnið ganga fyrir sig?

„Þetta byrjar á fyrirlestri á netinu í næstu viku þar sem fólkið okkar verður frætt um svefn og hvað er hægt að gera til að hámarka líkurnar á góðum svefni. Í kjölfarið verður svo gerð könnun á svefni starfsfólks. Allir starfsmenn fá sendan hlekk á könnunina, sem er að sjálfsögðu nafnlaus. Könnunin mun skima fyrir svefnvanda og þeir sem greinast með svefnvandamál fá boð í vefmeðferð Betri svefns sem nær yfir sex vikur ásamt sex vikna eftirfylgd. Á meðan á meðferðinni stendur hafa þátttakendur ótakmarkaðan aðgang að sálfræðingum Betri svefns í gegnum heimasvæði vefmeðferðarinnar. Meðferðin hjá Betri svefni er hugræn atferlismeðferð við svefnvanda sem hefur í klínískum rannsóknum sýnt 70-90% árangur sem mælist langvarandi. Við hvetjum því alla til að taka þátt, bæði í fyrirlestrunum og könnuninni. Við hvetjum líka þá sem telja sig ekki eiga við svefnvandamál að stríða til að taka þátt og sofa þá kannski enn betur!“, segir Sigurður.

Allir starfsmenn fá sendan hlekk á fyrirlesturinn, sem verður haldinn bæði á íslensku og ensku. Íslenski fyrirlesturinn verður mánudaginn 13.02. frá 12.30-13.30, en enski fyrirlesturinn verður daginn eftir kl.12.00-13.00. Starfsfólk er hvatt til að koma saman og horfa á fyrirlesturinn þar sem því er komið við. Upptaka af fyrirlestrinum verður í kjölfarið gerð aðgengileg. Svefnkönnunin verður svo send út strax í kjölfarið.