Rut Hermannsdóttir verkefnisstjóri, Gunnþór, Gísli Gíslason framkvæmdastjóri MSC og Valur Ásmundsson sölustjóri. Ljósm. Hákon Viðarsson.Í gær var Síldarvinnslunni afhent MSC- vottunarskírteini fyrir síldveiðar bæði úr norsk- íslenska stofninum og úr íslenska sumargotsstofninum. Þessi vottun felur í sér viðurkenningu á því að veiðar skipa fyrirtækisins séu stundaðar með sjálfbærum og ábyrgum hætti. Þar með hafa bæði síldveiðar og síldarvinnsla Síldarvinnslunnar hlotið MSC- vottun.

Það var Gísli Gíslason sem afhenti vottunarskírteinið en Gísli er framkvæmdastjóri MSC á Íslandi, í Færeyjum og á Grænlandi. Við þetta tækifæri flutti Gísli fróðlegt erindi fyrir starfsmenn Síldarvinnslunnar um eðli og þróun MSC-vottunarkerfisins og kom fram í því að um 80 fyrirtæki á Íslandi hafi nú fengið svonefnda rekjanleikavottun MSC. Ljóst er að vottun af þessu tagi skiptir orðið miklu máli því hún veitir neytendum traustar upplýsingar um að varan sé framleidd með sjálfbærum hætti og því styrkir hún markaðsstöðu viðkomandi framleiðslufyrirtækja. Neytendur á stórum markaðssvæðum fylgjast grannt með því hvort vörur séu merktar með vottunarmerkjum eður ei og MSC- merkið er mjög þekkt vottunarmerki.