Í síðasta mánuði kom út ný útgáfa frímerkja hjá Póstinum og ber hún heitið Togarar og fjölveiðiskip. Í útgáfunni eru fjögur frímerki og á einu þeirra er mynd af skuttogaranum Barða NK 120 sem Síldarvinnslan festi kaup á árið 1970. Barði hefur verið talinn fyrsti skuttogarinn í eigu Íslendinga enda var hann fyrsti togari landsmanna með allan hefðbundinn skuttogarabúnað og eingöngu ætlaður til togveiða.

Barði NK var smíðaður í Frakklandi árið 1967. Hann var 327,59 lestir að stærð og með 1200 hestafla vél. Síldarvinnslan festi kaup á skipinu árið 1970 og kom það í fyrsta sinn til heimahafnar í Neskaupstað hinn 14. desember það ár. Eftir að Síldarvinnslan festi kaup á skipinu voru gerðar á því ýmsar endurbætur en það hélt síðan til veiða hinn 11. febrúar 1971.

Fyrsti skipstjóri á Barða NK var Magni Kristjánsson og gegndi hann starfinu til 1973. Við af honum tók Birgir Sigurðsson og stýrði hann skipinu til 1977. Þriðji og síðasti skipstjórinn var Herbert Benjamínsson og var hann við stjórnvöl þar til skipið var selt til Frakklands árið 1979.

Barði tekur sig vel út á frímerkinu. Það er hannað af Elsu Nielsen en hönnunin byggir á ljósmynd sem Anna K. Kristjánsdóttir vélstjóri tók.