Loðnu dælt um borð í Beiti NK í dag. Ljósm. Sigurjón M. JónusonLoðnu dælt um borð í Beiti NK í dag. Ljósm. Sigurjón M. JónusonSíldarvinnsluskipin Börkur og Beitir eru á landleið eftir að hafa mokveitt loðnu á miðunum suður af landinu. Skipin héldu til veiða í gærkvöldi og voru komin á miðin um klukkan fimm í nótt. Beitir fékk um 2.700 tonn í þremur köstum og lagði af stað í land um klukkan fjögur í dag. Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti, sagði að mikið af loðnu væri að sjá á stóru svæði. „Við fengum aflann í þremur köstum innan við Tvísker. Þetta voru tvö eitt þúsund tonna köst og eitt minna. Loðnan er gullfalleg, stór og fín. Við erum með 1.500 tonn kæld og fer sú loðna til manneldisvinnslu. Við ættum að vera í Neskaupstað um klukkan tvö í nótt,“ sagði Tómas.
 
Börkur fyllti sig stuttu eftir að Beitir lagði af stað í land, en hann mun landa á Seyðisfirði. Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri sagði að loðnuveiðin hefði verið ævintýraleg í dag. „Hér er mjög mikið af loðnu á ferðinni og hún æðir vestur eftir. Við vorum að nálgast Ingólfshöfðann í síðasta kastinu. Við erum með 2.500 tonn og fengum 1.400 tonn í einu kastinu. Það er stærsta kast sem ég hef upplifað,“ sagði Hjörvar.