Skip Síldarvinnslunnar, Beitir NK og Börkur NK, hafa lokið veiðum á íslenskri sumargotssíld að þessu sinni. Beitir kom með 700 tonn til Neskaupstaðar síðastliðinn föstudag og Börkur með 800 tonn aðfaranótt laugardags. Eins og áður fór allur afli skipanna til manneldisvinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar.
 
Heimasíðan hafði samband við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra á Berki og spurði hann hvernig vertíðin hefði verið. „Vertíðin var frekar slök miðað við undanfarin ár. Síldin virðist ekki enn komin í vetursetu og torfumyndun varla hafin. Hún er dreifð og sennilega höfum við alls ekki fundið megnið af síldinni. Spurningin er bara hvar hún heldur sig. Þessi síld er þekkt fyrir að breyta um hegðun með reglulegu millibili og kannski er eitthvað slíkt að gerast núna,“sagði Hjörvar. „Vissulega náðu menn að fiska sinn kvóta en það tók lengri tíma en áður. Í fyrra voru menn sjaldnast á miðunum lengur en í einn og hálfan sólarhring og höfðu þá fengið góðan afla en nú tók þetta miklu lengri tíma og var erfiðara,“ sagði Hjörvar að lokum.
 
Beitir hélt til kolmunnaveiða í færeysku lögsögunni í fyrrakvöld og Börkur sigldi í kjölfar hans í dag. Ágæt kolmunnaveiði hefur verið við Færeyjar að undanförnu.