Börkur NK að loðnuveiðum. Ljósm. Geir ZoёgaBörkur NK að loðnuveiðum. Ljósm. Geir ZoёgaEins og flestum lesendum heimasíðunnar er fullkunnugt um er útgefinn loðnukvóti einungis 173 þúsund tonn og koma rétt liðlega 100 þúsund tonn í hlut íslenskra skipa. Kvóti Síldarvinnsluskipanna gæti orðið um 16 þúsund tonn. Þessi niðurstaða veldur miklum vonbrigðum en veiðistofninn að afloknum rannsóknum var metinn 675 þúsund tonn. Kvótinn er ákveðinn í samræmi við nýja aflareglu og er ljóst að hún leiðir til minni kvóta en sú eldri. Ef eldri reglan hefði verið í gildi má gera ráð fyrir að útgefinn kvóti væri um 250 þúsund tonn.
 
Fyrir Síldarvinnsluna leiðir þessi takmarkaði kvóti til þess að Síldarvinnsluskipin munu ekki hefja loðnuveiðar strax. Langmestu verðmætin liggja í Japansfrystingu og frystingu á loðnuhrognum og slík framleiðsla getur ekki hafist fyrr en loðnan er komin að hrygningu. Markaðir fyrir þessar afurðir eru þokkalegir og eðlilegt er að nýta þá sem best. Þá eru einnig einhverjir markaðir fyrir frysta loðnu í Úkraínu og Austur- Evrópu en kvótinn er það lítill að gera má ráð fyrir takmarkaðri framleiðslu inn á þá. Eins og staðan er í dag borgar sig að bíða með veiðar þar til framleiðsla verðmætustu afurðanna getur átt sér stað. Uppsjávarskip Síldarvinnslunnar, Beitir og Börkur, eru að kolmunnaveiðum í færeysku lögsögunni og munu fást við þær þar til skynsamlegt verður að hefja veiðar á loðnu.