Beitir NK hélt til makrílveiða í gær ásamt Barða NK og Berki NK.
Ljósm. Þorgeir Baldursson

Áformað var að Síldarvinnsluskipin héldu til makrílveiða sl. fimmtudag en brottför var frestað þar til í gær. Börkur NK, Barði NK og Beitir NK settu strax stefnuna á Smuguna og verða væntanlega komnir þangað síðar í dag. Skipin munu verða í veiðisamstarfi við Vilhelm Þorsteinsson EA og Margréti EA og er Vilhelm þegar kominn í Smuguna. Fleiri skip eru á leiðinni til veiða.

Að sögn Grétars Arnar Sigfinnssonar, rekstrarstjóra útgerðar Síldarvinnslunnar, er heldur lítið að frétta af veiði en þó mun Venus vera á landleið. Grétar minnir á að veiði hafi byrjað rólega í fyrra en síðan hafi ræst úr henni. Þá segir hann að mestu máli skipti að nægilega mikið veiðist til að halda vinnslunni gangandi.

Í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað er allt klárt til að taka á móti makríl til vinnslu og þar eru menn sannfærðir um að vertíðin verði góð.