Togarar Síldarvinnslunnar, Barði NK og Bjartur NK, komu að landi í gærkvöldi og í morgun og hafa þar með lokið veiðum fyrir hátíðar. Áhafnirnar munu því fara í vel þegið jólafrí en áformað er að skipin haldi til veiða á ný hinn 3. janúar.
Frystitogarinn Barði kom til hafnar í gærkvöldi og var hann með fullfermi af ufsa og karfa. Veiðiferðin hófst austur af landinu en síðan var haldið vestur og veitt í Víkurálnum. Vegna bilunar þurfti skipið að vera í þrjá daga á Ísafirði. Að sögn Bjarna Ólafs Hjálmarssonar skipstjóra aflaðist mjög vel í túrnum en tíðarfarið var hins vegar heldur rysjótt.
Ísfisktogarinn Bjartur kom til hafnar í morgun. Aflinn var blandaður, um 66 tonn af þorski og 22 tonn af grálúðu. Skipið var á veiðum í Seyðisfjarðardýpi og á Digranesflaki. Að sögn Steinþórs Hálfdanarsonar skipstjóra var fínasta fiskirí í túrnum eins og reyndar hefur verið að undanförnu. Nóg virðist vera af þorski og tiltölulega auðvelt að ná honum en heldur fyrirhafnarmeira er að ná grálúðunni.