Veiðar á norsk-íslenskri síld eru hafnar á Austfjarðamiðum enn eitt árið. Barði NK kom með fyrsta farminn til vinnslu hjá fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað þann 19. ágúst sl. Afli skipsins var 560 tonn og reyndist vera um úrvalssíld að ræða sem hentaði í alla staði vel til manneldisvinnslu. Börkur NK kom síðan aðfaranótt mánudagsins 28. ágúst með 1.500 tonn sem fengust í fimm holum í Héraðsflóadýpinu. Síðan hefur hver farmurinn af öðrum borist til vinnslu í fiskiðjuverinu.

Það er ávallt ákveðin stemmning sem fylgir síldinni. Sagan segir okkur frá miklum síldarárum og þá snerist mannlífið við sjávarsíðuna um þetta silfur hafsins. Sagan segir okkur einnig að síldin hverfur oft af miðunum fyrirvaralítið og þá upphefst gjarnan erfiðleikaskeið og bjartsýnin og ákveðnin sem fylgir síldinni hverfur eins og dögg fyrir sólu. Staðreyndin hefur semsagt reynst vera sú að síldin kemur og síldin fer.

Á seinni tímum er fylgst vel með síldargöngum og veiðum stýrt þannig að ekki sé gengið um of á stofninn. Sátt ríkir um veiðarnar og er kappkostað að nýta aflann með sem skynsamlegustum hætti og gera sem mest verðmæti úr honum. Skipakosturinn hefur einnig breyst þannig að nú er auðveldara en áður að elta síldina á fjarlæg mið.

Margir hafa orðið ríkir af síldinni og hún hefur einnig valdið því að margir hafa misst allt sitt. Oft hefur verið bent á að erfitt sé að treysta á þennan umtalaða fisk og varlega eigi að fara í fjárfestingar sem tengjst honum en hins vegar breytist allt eftir að síld tekur að veiðast; þá kemur síldarglampinn í augu mannanna og ekkert fær stöðvað þá bjartsýni sem þá verður til.

Skortur á síldarbjartsýni í upphafi

Þegar Síldarvinnslan hf. í Neskaupstað var stofnuð árið 1957 ríkti takmörkuð trú á síldveiðum og erfiðlega gekk að safna því hlutafé sem stefnt var að. Á þessum tíma voru síldveiðar hafnar úti fyrir Austfjörðum en ýmsir töldu að um stundarfyrirbrigði væri að ræða sem ekkert væri treystandi á. Ljóst var að ef efla átti síldariðnaðinn í Neskaupstað varð að koma þar upp öflugri síldarverksmiðju en fyrir var lítil fiskimjölsverksmiðja sem einungis afkastaði 30 tonnum á sólarhring og hafði þróarrými fyrir 50 – 60 tonn. Eigandi litlu verksmiðjunnar var Samvinnufélag útgerðarmanna og það var einmitt það félag sem hafði frumkvæði að stofnun Síldarvinnslunnar.

Síld landað í síldarverksmiðju Síldarvinnslunnar sumarið 1959.
Ljósm. Jakob Hermannsson

Upphaflega var ætlunin að safna einni milljón króna í hlutafé þegar Síldarvinnslan var stofnuð en það reyndist vera óraunsæ bjartsýni. Samvinnufélag útgerðarmanna lagði fram fasteign að verðmæti 300.000 krónur, bæjarfélagið og Dráttarbrautin hf. lögðu fram samtals 90 þúsund og kaupfélagið, Olíusamlag útvegsmanna og nokkrir útgerðarmenn lögðu fram samtals nokkra tugi þúsunda. Almenningur var hvattur til að taka þátt í hlutafjárútboðinu en sinnti því lítt. Aðeins fáir menn keyptu hlutabréf og flestir lágmarkshlut. Þeir einstaklingar sem keyptu hafa líklega alls ekki gert ráð fyrir að fá nokkuð í aðra hönd með því að taka þátt í stofnun hlutafélagsins. Þegar upp var staðið tókst með naumindum að selja helming boðinna hlutabréfa.

Þrátt fyrir að erfiðlega gengi að safna hlutafé var ákveðið að hið nýstofnaða félag reisti síldarverksmiðju og tók hún á móti fyrstu síldinni til vinnslu þann 17. júlí árið 1958. Í hönd fóru hin svonefndu síldarár og hið nýja hlutafélag blómstraði. Allt athafnalíf Neskaupstaðar einkenndist af

síldveiðum og vinnslu síldar næsta áratuginn og auk síldarverksmiðjunnar var síld söltuð á sex söltunarstöðvum í bænum þegar þær voru flestar.

Skorturinn á síldarbjartsýninni, sem ríkti þegar Síldarvinnslan var stofnuð, hvarf brátt eins og dögg fyrir sólu. Bjartsýni varð ráðandi og að því kom að Síldarvinnslan hóf að færa út kvíarnar; fyrirtækið hóf útgerð árið 1965 og sama ár festi það kaup á framleiðslutækjum Samvinnufélags útgerðarmanna. Þar með má segja að Síldarvinnslan hafi verið orðið alhliða sjávarútvegsfyrirtæki sem treysti ekki eingöngu á veiðar og vinnslu síldar.

Síldin hverfur – nýjar áherslur

Árið 1964 urðu ákveðin þáttaskil í síldveiðunum. Þá veiddist mest um haustið og í byrjun vetrar en ekki yfir sumartímann eins og áður. Á árunum 1965 og 1966 þurfti síldveiðiflotinn að sækja síldina langt norður í höf yfir sumarið en þegar haustaði þétti síldin sig á Rauða torginu 50 – 130 sjómílur út af Norðfirði og þá glæddist veiðin svo um munaði. Síldveiðarnar 1967 gengu síðan miklu verr en áður. Um sumarið var veitt við Jan Mayen og vegna tregveiði þar hófu íslensk síldveiðiskip síldveiðar í Norðursjó í ríkum mæli. Þegar hausta tók gekk síldin í átt til landsins en veður gerði það að verkum að tiltölulega lítið veiddist á Rauða torginu. Árið 1968 reið síðan áfallið yfir. Um sumarið var síldin elt langt norður í Dumbshaf en þegar hún gekk nær landinu þétti hún sig ekki og var því ekki veiðanleg í síldarnæturnar. Þessu síldarævintýri var lokið.

Löndunarbið síldarbáta í Neskaupstað sumarið 1963.
Ljósm. Jóhann Zoëga

Fyrirtæki eins og Síldarvinnslan þurfti að bregðast við nýjum aðstæðum. Áhersla á loðnuveiðar og síðar kolmunnaveiðar jókst og sömuleiðis urðu bolfiskveiðar og bolfiskvinnsla mikilvægari en áður. Síldarvinnslan reið á vaðið og festi kaup á fyrsta skuttogara landsmanna árið 1970. Nýir tímar sáu dagsins ljós en að því kom að síldin fór að skipta máli á ný. Síldarvinnslan hóf að vinna íslenska sumargotssíld á árinu 1976 og árið 1994 komust veiðar á norsk – íslenskri síld aftur á dagskrá. Saga síldveiða síðustu öldina sýnir hve mikilvægt er að sjávarútvegsfyrirtæki séu öflug og geti aðlagað sig breytilegum aðstæðum.