Síldveiðar skipa Síldarvinnslunnar hafa verið vottaðar. Ljósm. Vilhelm Harðarson.Nýverið fékk Síldarvinnslan allar síldveiðar sínar vottaðar. Um er að ræða svonefnda MSC – vottun og nær hún bæði til veiða á norsk-íslenskri síld og íslenskri sumargotssíld. Vottunin felur í sér viðurkenningu á því að síldveiðar á vegum fyrirtækisins séu stundaðar með sjálfbærum hætti og að fyrirtækið muni fyrir sitt leyti vinna að því að strandríki nái samkomulagi um ábyrgar veiðar úr viðkomandi síldarstofnum.

Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar segir að vottun veiðanna sé mikilvægur áfangi en áður hafði öll síldarvinnsla á vegum fyrirtækisins hlotið vottun. Segir hann að vottun af þessu tagi skipti miklu máli fyrir sölu afurðanna enda veiti hún kaupendum traustar upplýsingar um að veiðarnar séu sjálfbærar og nýting aflans eins og best verður á kosið. Vottunin styrkir því markaðslega stöðu fyrirtækisins með ótvíræðum hætti.