Birtingur NK kemur til löndunar. Ljósm. Hákon ErnusonBirtingur NK kemur til löndunar. Ljósm. Hákon ErnusonBirtingur NK kom til Neskaupstaðar í gær með 870 tonn af íslenskri sumargotssíld sem fékkst vestur af landinu. Þetta er þriðji síldarfarmurinn sem berst til Neskaupstaðar á vertíðinni en áður höfðu Bjarni Ólafsson AK og Börkur NK komið með síld til vinnslu. Að sögn Hálfdanar Hálfdanarsonar skipstjóra á Birtingi var aflinn tregur fyrstu daga veiðiferðarinnar en glæddist mjög undir lokin eða á fimmtudag og föstudag. „Það var eins og síldin væri að koma utan af hafi og það var miklu meira að sjá en áður þessa tvo síðustu daga sem við vorum á miðunum,“ sagði Hálfdan. „Líklega er hún bara seinna á ferðinni en undanfarin ár, ástandið í hafinu er þannig að allt virðist vera seinna á ferðinni. Við vorum að veiðum um 70 mílur vestur og vestnorðvestur af Reykjanesi og síldin sem fékkst var fín og átulaus. Hún ætti að henta vel til vinnslu. Fyrir okkur er 380 mílna stím heim af miðunum, það er dálítið langt, en svona er þetta bara,“ sagði Hálfdan að lokum.
 
Birtingur mun halda á ný til veiða strax að löndun lokinni í dag.