Beitir NK. Ljóm. Hákon Viðarsson Síldveiðiskip Síldarvinnslunnar, Beitir og Börkur, héldu til veiða á föstudagskvöld og á laugardag að afloknu stuttu hléi. Starfsfólk fiskiðjuversins fékk gott helgarfrí og allmargir starfsmenn fyrirtækisins sóttu sjávarútvegssýninguna þannig að hléið nýttist ágætlega.

Beitir kom síðan til hafnar í Neskaupstað í nótt með 900 tonna afla og er hann nánast hrein síld. Hálfdan Hálfdanarson skipstjóri segir að aflinn hafi fengist í fimm holum í Reyðarfjarðardýpinu 30-50 mílur frá Norðfjarðarhorni. „Þetta verður ekki styttra“, sagði Hálfdan, “og þar að auki er þetta stór og góð síld sem þarna fæst. Holin sem við tókum voru stutt enda er öll áhersla lögð á að koma með sem best hráefni að landi. Seinni part beggja daganna sem við vorum að veiðum fengust mjög góð hol.“

Börkur  er að veiðum á svipuðum slóðum og Beitir var á og hefur fiskað vel. Gert er ráð fyrir að löndun úr honum hefjist strax og löndun lýkur úr Beiti.

Nú er farið að styttast í þessari síldarvertíð þannig að brátt verður farið að hyggja að veiðum á íslenskri sumargotssíld.