Síldarflokkun í Fiskiðjuveri SíldarvinnslunnarHjá Síldarvinnslunni hf. höfum við verið að vinna úr íslensku síldinni og eru komin um 8 þúsund tonn á land.  Öll síldin hefur verið fryst og það sem flokkast frá fer til bræðslu auk afskurðar.

Það hefur sýnt sig sig á þessari vertíð hvað samstarf Hafrannsóknarstofnunar og útgerða skiptir miklu máli við rannsóknir og stofnmat.  Ef sjávarútvegsráðherra hefði ekki úthlutað rannsóknarkvóta í upphafi er óvíst að við værum að vinna nokkra síld í dag.  Ef það hefði verið raunin, værum við að fara á mis við mikil verðmæti.

Þrátt fyrir mikinn samdrátt í heimildum á síldinni hér heima þá er þetta magn mjög mikilvægt fyrir fyrirtækin, starfsfólk og samfélögin úti á landi sem byggja afkomu sína á þessum veiðum.  Síldin gefur starfsfólki og fyrirtækjum góða afkomu og sveitarfélögum og ríkinu skatttekjur sem eru ekki lítils virði nú á tímum.

Síldarvinnslan hf. hefur skipt á heimildum við Samherja hf. og Gjögur ehf., þannig að vinnsluskip þeirra vinna norsk-íslensku síldina okkar við Noreg og Síldarvinnslan mun í staðinn veiða og vinna heimildir þeirra af heimasíldinni.  Með þessum skiptum er verið að hámarka virði aflaheimildanna bæði í norsk-íslensku síldinni og heimasíldinni.

Hjá Síldarvinnslunni hf. starfa 44 manns við frystinguna og 18 manns við bræðsluna og á skipunum eru 26 störf, auk starfa í utanumhaldi og viðhaldi.

Núna stendur yfir rannsókn á síldinni í samstarfi við Hafrannsóknarstofnun og munu skip Síldarvinnslunnar leita suð-austur svæðið að Vestmannaeyjum í næstu viku en þeirri leit var seinkað vegna veðurs.  Þegar þeirri leit verður lokið munu útgerðarfyrirtækin hafa lagt af mörkum 40 leitardaga á vertíðinni á móti þeim rannsóknarkvóta sem úthlutað var.
Við bindum vonir við að það finnist meiri síld þannig að hægt sé að bæta við kvótann.

Gunnþór Ingvason
Framkvæmdastjóri