Starfsfólk fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar í Neskaupstað er afar gott og býr drjúgur hluti þess yfir mikilli reynslu. Meirihluta ársins er unnið á vöktum í fiskiðjuverinu og afköstin hafa aukist nánast ár frá ári enda er sífellt verið að bæta þann búnað sem nýttur er. Talsvert hefur borið á því að ungt skólafólk sækist eftir vinnu í verinu enda er unnt að hafa þar góðar tekjur. Síðan í ágústmánuði hafa þrír sjávarútvegsfræðingar gengið vaktir í fiskiðjuverinu. Sá fjórði er Árni Freyr Arngrímsson sem ráðinn var verkstjóri í verinu sl. sumar en Árni er einmitt að ljúka námi í sjávarútvegsfræðum og mun vinna lokaritgerðina í samvinnu við Síldarvinnsluna. Heimasíðan hitti þennan hóp að máli í fiskiðjuverinu og spjallaði við hann.
Sjávarútvegsfræðingarnir þrír eru Sylvía Kolbrá Hákonardóttir frá Neskaupstað, Magnús Blöndal frá Akureyri og Fannar Freyr Magnússon frá Reykjavík. Þau Sylvía og Fannar Freyr hafa einnig lokið BS-námi í viðskiptafræðum og Magnús hefur hafið mastersnám í þeim fræðum og mun skrifa lokaritgerð um áhrif hins svonefnda Rússabanns á Síldarvinnsluna. Að auki hefur Magnús lokið diplómanámi í fiskeldisfræðum.
Sylvía Kolbrá er Norðfirðingur og þekkir vel til í fiskiðjuverinu. „Ég hef unnið í fiskiðjuverinu á hverju sumri frá árinu 2010 og reyndar vann ég þar í heilt ár að loknu stúdentsprófi. Fyrir mig var það dýrmæt reynsla að kynnast öflugri uppsjávarvinnslu auk þess sem vinnan gefur rosalega góðan pening. Það er ekki víða hægt að fá jafn vel launaða vinnu. Ég kann vel við vinnuna og vinnustaðurinn er skemmtilegur. Til viðbótar hefur verið einstaklega gaman og fróðlegt að fylgjast með þróuninni í fiskiðjuverinu. Það er alltaf verið að bæta við búnaði og afköstin eru alltaf að aukast,“ segir Sylvía.
Magnús segir að nú sé hann á sinni þriðju vertíð í fiskiðjuverinu. „Við Sylvía erum kærustupar og hún togaði mig hingað austur fyrst. Mér finnst þetta frábær vinna og það er svo gaman að taka þátt í framleiðslustarfsemi þar sem er full keyrsla alla daga. Mér finnst vinnan skemmtileg og þar að auki er hún betur borguð en flest annað sem maður á kost á. Við sem höfum verið í námi þurfum svo sannarlega á því að halda að afla góðra tekna og það er unnt að gera það hér í fiskiðjuverinu,“ segir Magnús.
Fannar Freyr tekur undir með þeim Sylvíu og Magnúsi. „Þetta er önnur vertíðin mín hérna í Neskaupstað og það er mikilvæg reynsla fyrir mig að kynnast uppsjávarvinnslu. Ég hafði áður starfað við bolfiskvinnslu og á frystitogara en þetta var eitthvað nýtt. Það var einkum gamall skólabróðir úr sjávarútvegsfræðinni í Háskólanum á Akureyri, Sigurður Steinn Einarsson, sem fékk mig fyrst til að koma en mér hefur líkað afskaplega vel. Auðvitað er þetta vaktavinna og stíft unnið en launin eru afar góð. Nú kom ég með kærustuna mína, Tinnu Dagbjartsdóttur, með mér en hún hefur ekki unnið svona vinnu áður. Það er hið sama um hana að segja; henni líkar vel. Hún var að ljúka BA-námi í sálfræði svo það eru því ekki einungis sjávarútvegsfræðingar sem eru ánægðir með að starfa í fiskiðjuverinu,“ segir Fannar Freyr.
Eins og fyrr greinir var Árni Freyr Arngrímsson ráðinn verkstjóri í fiskiðjuverinu sl. sumar en hann hafði starfað þar á vertíðinni 2013. Árni segir að það sé skemmtilegt að fá fyrrverandi skólafélaga úr Háskólanum á Akureyri til starfa. „Það er vel tekið á móti þessu fólki af öðrum starfsmönnum og ég fæ ekki betur séð en það falli vel inn í starfsmannahópinn. Þetta er líka fólk sem þekkir orðið vel til hér í fiskiðjuverinu og sækist eftir að koma til starfa vertíð eftir vertíð,“ segir Árni Freyr.