Nemendur Sjávarútvegsskólans með útskriftarskirteinin. Ljósm. Sigurður Steinn EinarssonSjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar var slitið í fyrsta sinn í dag. Skólinn hóf starfsemi sína hinn 29. júlí og starfaði í tvær vikur. Alls veittu 24 nemendur útskriftarskírteinum móttöku í Safnahúsinu í Neskaupstað og að því loknu var boðið upp á góða hamborgaraveislu.
Síðustu dagar skólastarfsins voru viðburðaríkir en þá áttu sér stað heimsóknir í vinnslustöðvar Síldarvinnslunnar ásamt því að skrifstofur fyrirtækisins voru heimsóttar. Eins fengu nemendur fyrirlestur um störfin sem framkvæmd eru á skrifstofunum.

Í vinnslustöðvunum var tekið á móti nemendahópnum og hann fræddur um starfsemina. Í fiskimjölsverksmiðjunni var framleiðsluferillinn útskýrður og vakin athygli nemenda á því að verksmiðjan er að mestu leyti tölvustýrð. Þá voru störfin á rannsóknastofu verksmiðjunnar kynnt.
Þórhallur Jónasson gæðastjóri fræðir nemendur á rannsóknastofu fiskimjölsverksmiðjunnar. Ljósm. Margrét Þórðardóttir

Nemandi í Sjávarútvegsskólanum að hefja flökun á ufsa. Ljósm. Margrét Þórðardóttir

 

Í fiskiðjuverinu var fylgst með framleiðslu á makríl og öll sú sjálfvirkni sem þar ræður ríkjum kynnt og útskýrð. Þá fengu nemendur að skoða ýmsar fisktegundir og reyna sig við aðgerð og flökun.

Þá voru frystigeymslurnar heimsóttar en frystigeymslur Síldarvinnslunnar eru hinar stærstu á landinu. Fengu nemendur að fylgjast með löndun á frystum makríl og hvernig frá honum er gengið í geymslunum. Alls er unnt að geyma um 20.000 tonn af frystum afurðum í geymslunum en um þær fóru um 90.000 tonn á árinu 2012.
Það voru glaðir og reifir nemendur sem tóku á móti útskriftarskírteinunum í dag og eru umsjónarmenn skólans þakklátir fyrir að hafa fengið tækifæri til að umgangast þá í þessar tvær vikur. Sjávarútvegsskólinn var hugsaður sem tilraunaverkefni og fátt ætti að vera því til fyrirstöðu að efna aftur til skólahalds að ári.