Nemendur Sjávarútvegsskólans í heimsókn í Egersund. Ljósm. Sylvía Kolbrá Hákonardóttir

         Nemendur Sjávarútvegsskólans í heimsókn í Egersund. Ljósm. Sylvía Kolbrá Hákonardóttir             

Kennsla í Sjávarútvegsskóla Austurlands hófst á Eskifirði sl. mánudag. Er það annar staðurinn sem kennt er á í sumar en kennslu í Neskaupstað lauk 12. júní sl. Níu nemendur frá Eskifirði og Reyðarfirði sækja skólann að þessu sinni og eru kennarar þau Sigurður Steinn Einarsson sjávarútvegsfræðingur, Sylvía Kolbrá Hákonardóttir nemi í sjávarútvegsfræðum og Páll Jónsson nemi í viðskiptatengdri ferðamálafræði.

                Á fyrsta kennsludegi hlýddu nemendur á fyrirlestra um sögu fiskveiða og einkenni íslensks sjávarútvegs og á öðrum degi var fjallað um þróun fiskvinnslu ásamt því að farið var í heimsóknir í fiskimjölsverksmiðju Eskju og netagerðina Egersund. Síðar verður fjallað um gæðamál og markaðsmál og farið í fleiri vettvangsheimsóknir, meðal annars um borð í fiskiskip.

                Að sögn kennaranna gengur starfsemi skólans vel og nemendahópurinn þykir góður og áhugasamur. Að lokinni kennslu á Eskifirði verður kennt á Fáskrúðsfirði, Seyðisfirði og Vopnafirði, en síðasti kennslustaðurinn er Höfn. Kennt er í eina viku á hverjum stað.