Sjávarútvegsskólinn í heimsókn í Neskaupstað. Ljósm: Sigurður Steinn Einarsson
Sl. föstudag lauk kennslu í Sjávarútvegsskóla Austurlands á Fáskrúðsfirði en í nemendahópnum þar voru ungmenni frá Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði. Þar með er kennslu á vegum Sjávarútvegsskólans lokið í Fjarðabyggð þetta árið en áður hefur nemendahópum verið kennt í Neskaupstað og á Eskifirði.
Samkvæmt venju var nemendum á Fáskrúðsfirði boðið upp á fyrirlestra um sögu fiskveiða og fiskvinnslu og einnig um gæða- og markaðsmál. Nemendur fóru í vettvangsheimsóknir t.d. í bolfiskvinnslu Loðnuvinnslunnar og einnig um borð í skip fyrirtækisins. Þá var fiskimjölsverksmiðja Eskju heimsótt og einnig fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Í Neskaupstað var tekið á móti hópnum í Verkmenntaskóla Austurlands þar sem frætt var um hin fjölbreyttu störf í sjávarútvegi og hvaða menntunar störfin krefðust og eins var rannsóknastofa Matís heimsótt.
Að sögn kennaranna var Fáskrúðsfjarðarhópurinn einkar áhugasamur og stóð sig vel í náminu. Nú er hafinn undirbúningur fyrir næstu kennslulotu skólans en hún mun fara fram á Seyðisfirði í næstu viku. Nemendum frá Fljótsdalshéraði verður boðinn frír akstur til að sækja kennslu á Seyðisfirði. Enn er unnt að skrá sig á heimasíðu skólans, www.sjavarskoli.net.