Nemendur Sjávarútvegsskólans á Seyðisfirði í vettvangsheimsókn um borð í Bjarna Ólafssyni AK. Ljósm: Sylvía Kolbrá Hákonardóttir
Kennslu í Sjávarútvegsskóla Austurlands á Seyðisfirði lauk í gær en þar sóttu skólann nemendur frá Fljótsdalshéraði auk Seyðfirðinga. Kennslan á Seyðisfirði er fjórða námslota skólans í sumar en áður hefur verið kennt í Neskaupstað, Eskifirði og Fáskrúðsfirði.
Að sögn kennara skólans gekk kennslan á Seyðisfirði vel og voru nemendur áhugasamir og duglegir. Á lokadegi kennslulotunnar var haldið með nemendur í vettvangsferð til til Neskaupstaðar og Eskifjarðar þar sem farið var í heimsókn í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar og netagerð Egersund. Áður höfðu nemendur kynnt sér starfsemi fiskvinnslu Gullbergs og fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði.
Áformað var að hefja næstu kennslulotu á Vopnafirði í næstu viku en henni hefur verið frestað fram í ágústmánuð og verður nánar auglýst síðar. Greint verður frá áframhaldi starfsemi Sjávarútvegsskólans á heimasíðu hans www.sjavarskoli.net.