Ufsi flakaður í Sjávarútvegsskólanum. Ljósm. Margrét ÞórðardóttirUfsi flakaður í Sjávarútvegsskólanum. Ljósm. Margrét ÞórðardóttirKennsla í Sjávarútvegsskóla Austurlands mun hefjast strax eftir sjómannadag eða mánudaginn 8. júní. Alls verður kennt á vegum skólans á sex stöðum í landshlutanum en Neskaupstaður verður fyrsti kennslustaðurinn. Ákveðið hefur verið hvenær kennt verður á hverjum stað en dagsetningar kennsludaga á Höfn hafa ekki enn verið birtar enda mun ekki verða kennt þar fyrr en í ágústmánuði.
 
Kennslustaðir og dagsetningar kennsludaga eru sem hér segir:
                          
Neskaupstaður 8.-12. júní
Eskifjörður 22.-26. júní
Fáskrúðsfjörður 6.-10. júlí
Seyðisfjörður 20.-24. júlí
Vopnafjörður 27.-31. júlí
Höfn ( kennt verður í ágúst, dagsetningar auglýstar síðar)
 
Skólinn er hugsaður fyrir ungmenni sem fædd eru árið 2001 og verða greidd laun fyrir þá daga sem þau sækja skólann. Launin miðast við laun í vinnuskólum sveitarfélaganna. Allir af árgangi 2001 eiga kost á að sækja skólann en skráning fer fram á heimasíðunni www. sjavarskoli.net. Þá er einnig að finna ýmsar upplýsingar um námið í skólanum á síðunni. Að auki er unnt að afla upplýsinga um skólastarfið með því að hringja í Sigurð Stein (867-6858) eða Sylvíu Kolbrá (868-7077).
 
Sjávarútvegsskóli Austurlands er samstarfsverkefni sjávarútvegsfyrirtækja og sveitarfélaga í landshlutanum. Að skólanum standa Austurbrú, HB Grandi, Gullberg, Síldarvinnslan, Eskja, Loðnuvinnslan og Skinney-Þinganes.