DSC01102 2

Mynd tekin í Sjávarútvegsskóla Fjarðabyggðar árið 2014

Sumarið 2013 hóf Síldarvinnslan að starfrækja Sjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar. Skólastarfið stóð yfir í tvær vikur og fengu nemendur greidd námslaun sem voru sambærileg launum í Vinnuskóla Fjarðabyggðar. Mikill áhugi reyndist vera á skólastarfinu en lögð var áhersla á að fræða ungmennin um sögu sjávarútvegs og fiskvinnslu, gæða- og markaðsmál, starfsmannamál og menntun starfsfólks í sjávarútvegi og tengdum greinum. Þá var farið í vettvangsheimsóknir um borð í skip, fiskvinnslufyrirtæki og til fyrirtækja sem þjónusta sjávarútveginn. Meginástæða þess að efnt var til skólahalds sem þessa er sú að skólakerfið leggur litla áherslu á fræðslu um þessa undirstöðuatvinnugrein. Einnig hefur verið bent á að í sjávarplássum nútímans er hægt að alast upp án þess að sjá nokkurn tímann fisk. Áður fyrr var öll starfsemi tengd sjávarútvegi nálægt fólki; afla var landað á hverri bryggju, beitt í fjölda skúra og vinnsla á fiski fór jafnvel fram undir beru lofti. Nú er öldin önnur; veiðiskipin eru stærri og færri en áður, aflanum landað á lokuðum hafnarsvæðum og vinnslan fer fram innanhúss þar sem farið er eftir ströngum reglum um hreinlæti og gæði.

                Starfsemi Sjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar vakti athygli og önnur fyrirtæki í Fjarðabyggð sýndu því áhuga að taka þátt í skólastarfinu. Niðurstaðan varð sú að Sjávarútvegsskóli Fjarðabyggðar tók til starfa í fyrra og auk sjávarútvegsfyrirtækjanna Eskju og Loðnuvinnslunnar komu Vinnuskóli Fjarðabyggðar og Austurbrú til liðs við Síldarvinnsluna. Efnt var til skólahalds í allri Fjarðabyggð fyrir nemendur sem fæddir voru árið 2000 og var kennt á þremur stöðum í sveitarfélaginu.

                Enn mun Sjávarútvegsskólinn færa út kvíarnar og í ár verður starfssvæði hans allt Austurland, eða svæðið frá Vopnafirði til Hornafjarðar. Auk sveitarfélaga við sjávarsíðuna mun Fljótsdalshérað taka fullan þátt í skólahaldinu. Í samræmi við þetta hefur nafni skólans verið breytt og ber hann nú heitið Sjávarútvegsskóli Austurlands.

                Í ár gefst ungmennum sem fædd eru árið 2001 kostur á að sækja Sjávarútvegsskólann, en ráðgert er að kenna á sex stöðum. Kennsla mun fara fram í Neskaupstað, á Eskifirði, Fáskrúðsfirði, Vopnafirði , Höfn og Seyðisfirði. Nemendum frá þeim byggðarlögum, sem ekki verður kennt í , verður ekið til og frá kennslustað.

                Nánari upplýsingar um skólahaldið er að finna á www.sjavarskoli.net og þar verður unnt að skrá sig í skólann. Eins munu þar birtast upplýsingar um hvenær kennsla fer fram á hverjum stað. Í forsvari fyrir skólann eru þau Sylvía Kolbrá Hákonardóttir (gsm 868-7077) og Sigurður Steinn Einarsson (gsm 867-6858).

                Þess skal getið að Síldarvinnslan hlaut viðurkenningu Samtaka atvinnulífsins sem  menntasproti ársins í febrúar á þessu ári fyrir frumkvæði sitt við að koma Sjávarútvegsskólanum á fót.