Frá Sjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar síðastliðið sumar. Ljósm. Margrét Þórðardóttir.Á síðasta sumri starfrækti Síldarvinnslan sjávarútvegsskóla fyrir  ungmenni sem fædd voru á árunum 1998 og 1999. Skólinn var tilraunaverkefni og starfaði í tvær vikur. Meginmarkmiðið með skólahaldinu var að gefa nemendum kost á að fræðast um fiskveiðar og fiskvinnslu en skólastarfið byggði á fyrirlestrahaldi og heimsóknum þar sem vinnslustöðvar, þjónustufyrirtæki  og fiskiskip voru skoðuð. Nemendur fengu námslaun á þeim tíma sem skólinn starfaði og voru þau sambærileg þeim launum sem greidd voru í Vinnuskóla Fjarðabyggðar. 

Námsefnið var fjölbreytt og kennarar í skólanum voru margir. Í upphafi námsins var sögu sjávarútvegs gerð skil og fjallað um veiðiskip, veiðarfæri og verkunaraðferðir á hverjum tíma. Lögð var áhersla á að gera grein fyrir tækniþróuninni og þeim samfélagslegu áhrifum sem sjávarútvegurinn hefur haft. Fyrir utan þetta var fjallað um stoðgreinar sjávarútvegsins, markaðsmál og gæðamál og kennslunni fylgt eftir með heimsóknum í fyrirtæki og um borð í skip. Í kennslunni kom skýrt fram hve störfin innan sjávarútvegsins eru fjölbreytt og þegar Verkmenntaskóli Austurlands var heimsóttur var fjallað um allar þær námsleiðir sem þeir sem kjósa að sinna störfum innan sjávarútvegs eiga kost á að velja.

Sjávarútvegsskóli Síldarvinnslunnar þótti heppnast vel og í ár var tekin ákvörðun um að færa út kvíar skólastarfsins. Sjávarútvegsfyrirtækin Eskja og Loðnuvinnslan komu til liðs við Síldarvinnsluna og Vinnuskóli Fjarðabyggðar og Austurbrú einnig. Ákveðið var að efna til skólahalds í allri Fjarðabyggð fyrir nemendur sem fæddir eru árið 2000 og í samræmi við það var heiti skólans breytt í Sjávarútvegsskóla Fjarðabyggðar. Mun skólinn starfa í þrjár vikur í sumar og fer kennsla fram á þremur stöðum; Neskaupstað, Eskifirði og Fáskrúðsfirði. Skólastarfið hefur þegar verið auglýst og mun skólinn starfa í eina viku á hverjum stað. Í Neskaupstað verður kennt dagana 23. júní til 27. júní, á Fáskrúðsfirði 30. júní til 4. júlí og á Eskifirði 7. júlí til 11. júlí.

Það er von þeirra sem standa að Sjávarútvegsskóla Fjarðabyggðar að þeir nemendur sem fæddir eru árið 2000 fjölmenni í skólann og láti ekki þetta einstaka tækifæri fara framhjá sér. Skólahaldið verður líflegt og fjölbreytt og vissulega er það fátítt að nemendur á þessum aldri eigi kost á að sækja nám á fullum launum.  Það er mat þeirra sem standa að Sjávarútvegsskóla Fjarðabyggðar að námsefni grunnskólans fjalli afar lítið um sjávarútveg en Sjávarútvegsskólanum er ætlað að bæta úr því. Aðstandendur skólans telja brýnt að ungmenni í sjávarbyggðum eins og í Fjarðabyggð þurfi að öðlast staðgóða þekkingu á sjávarútvegi enda ráðast lífsskilyrði íbúanna beint og óbeint af gengi greinarinnar.

Sigurður Steinn Einarsson sjávarútvegsfræðingur, Sylvía Kolbrá Hákonardóttir nemi í sjávarútvegsfræðum og Elvar Ingi Þorsteinsson markaðsfræðingur vinna nú að gerð námsefnis fyrir Sjávarútvegsskólann auk þess sem þau skipuleggja skólahaldið í samvinnu við Austurbrú. Skólastarfið hefur þegar verið auglýst og er skráning í skólann hafin á www.sjavarskoli.net