Nemendur fengu að prófa að títra og vakti það mikla lukku að vökvinn breytti um lit en rauður litur táknar sýru en blár basa. Ljósm. Sigurður Steinn EinarssonSjávarútvegsskóli Fjarðabyggðar var settur í Neskaupstað síðastliðinn mánudag. Það var Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar sem setti skólann og í máli sínu lagði hann mikla áherslu á nauðsyn þess að ungt fólk í sjávarbyggðum kynntist sjávarútvegi sem atvinnugrein og áttuðu sig á mikilvægi hennar fyrir samfélagið. Kennsla í skólanum mun einnig fara fram á Fáskrúðsfirði og Eskifirði. Á Fáskrúðsfirði hefst skólahaldið hinn 30. júní og á Eskifirði 7. júlí. Í Neskaupstað er  21 nemandi í skólanum en skráningar í skólann standa enn yfir á Fáskrúðsfirði, Stöðvarfirði, Reyðarfirði og Eskifirði.

Að lokinni skólasetningu hófst kennsla  og voru nemendur fræddir um sögu sjávarútvegsins og þær breytingar sem átt hafa sér stað á sviði veiða. Á næsta skóladegi var fiskiðjuver Síldarvinnslunnar heimsótt og síðan fjallað um þróun fiskvinnslu. Á þriðja degi verður fluttur fyrirlestur um gæðamál og markaðsmál ásamt því að Verkmenntaskóli Austurlands verður heimsóttur en verða nemendur fræddir um nám sem tengist sjávarútvegi með beinum og óbeinum hætti. Á fjórða degi koma gestafyrirlesarar í skólann en þar er um að ræða fólk sem starfar í sjávarútvegi og hefur jafnvel upplifað afgerandi breytingar í greininni. Einnig spreyta nemendur sig í fiskiquiz þann daginn. Á lokadegi skólans verður farið í ferðalag og hraðfrystihús Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði heimsótt ásamt fiskimjölsverksmiðjunni á Eskifirði, Fiskmarkaði Austurlands, veiðarfæragerð o. fl. Einnig verður farið um borð í fiskiskip á lokadeginum og fræðst um störf sjómanna og veiðibúnað.

Hópur nemenda Sjávarútvegsskólans í Neskaupstað. Ljósm. Sigurður Steinn EinarssonAð sögn Sigurðar Steins Einarssonar skólastjóra hefur kennslan í Neskaupstað gengið vel til þessa og nemendur verið einkar áhugasamir. Upplýsti Sigurður að nemendum kæmi á óvart hve tæknistig væri hátt í sjávarútveginum og hve störfin í atvinnugreininni væru fjölbreytt. Þá sagði Sigurður að nemendum þætti afar gaman að spreyta sig á ýmsum verkefnum eins og til dæmis að flaka fisk. Aðspurður sagði Sigurður að skráningar í skólann gengju vel utan Neskaupstaðar en aðsóknin í Neskaupstað hefði farið fram úr björtustu vonum.