Sjávarútvegsskóli Síldarvinnslunnar verður settur mánudaginn 29. júlí næstkomandi. Umsóknarfrestur um skólavist rann út 15. júlí og er ljóst að skólinn verður fullsetinn. Ráðgert var að nemendur yrðu 20 talsins en vegna mikils fjölda umsókna hefur verið ákveðið að taka inn 27 nemendur.
Margir hafa sýnt fyrirhuguðu skólastarfi áhuga og hafa Síldarvinnslunni borist fyrirspurnir um hvernig ráðgert sé að standa að skólahaldinu. Almennt virðast menn sammála því að full þörf sé á að gefa ungmennum kost á fræðslu um þessa undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar, sögu hennar og eðli.
Skólinn mun starfa í tvær vikur, 3-4 klukkustundir á dag og munu starfsmenn Síldarvinnslunnar annast kennslu. Litið er á skólahaldið sem tilraunaverkefni og að þessu sinni höfðu 8. bekkingar Nesskóla forgang þegar unnið var úr umsóknum. Nemendur fá greidd námslaun og verða launin sambærileg þeim launum sem greidd eru í Vinnuskóla Fjarðabyggðar.
Væntanlegir nemendur munu fá tölvupóst á næstu dögum þar sem upplýsingar verða veittar um starfsemi skólans.