Í morgun var Sjávarútvegsskóli Síldarvinnslunnar settur í fyrsta sinn. Það var Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar sem setti skólann og bauð nemendur velkomna til starfa. Síðan hlýddu nemendur á fyrirlestra um sögu útgerðar og sögu fiskvinnslu ásamt því að skoða gögn um útgerðarsöguna frá Skjala- og myndasafni Norðfjarðar. Mikill áhugi reyndist vera fyrir skólastarfinu og eru nemendur 27 að tölu, 17 stúlkur og 10 piltar. Nemendurnir eru allir fæddir á árunum 1999 og 1998.
Síldarvinnslan telur mjög mikilvægt að gefa ungmennum kost á að fræðast um sjávarútveg en námsefni sem notað er í íslenskum skólum virðist leggja litla áherslu á að veita upplýsingar um þessa undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. Frumkvæðið sem Síldarvinnslan hefur sýnt með stofnun Sjávarútvegsskólans hefur þegar smitað út frá sér og mun Íslenski sjávarklasinn verða með samsvarandi skóla í Grindavík í ágústmánuði næstkomandi. Skólinn í Grindavík er nefndur Codland vinnuskólinn.
Sjávarútvegsskóli Síldarvinnslunnar mun starfa í tvær vikur. Auk kennslu um sögu sjávarútvegs og fiskvinnslu fá nemendur fræðslu um gæða- og markaðsmál, starfsmannamál, menntun starfsfólks í sjávarútvegi og tengdum greinum o. s. frv. Einnig munu nemendur heimsækja fiskiðjuver og fiskimjölsverksmiðu ásamt því að fara í vettvangsheimsóknir í fyrirtæki sem þjóna sjávarútveginum eins og til dæmis, netagerð, vélaverkstæði og rannsóknastofur.Síðast en ekki síst munu nemendur fara um borð í fiskveiðiskip og fá fræðslu um búnað þeirra og starfsemina um borð. Á meðan skólinn starfar munu góðir gestir koma í heimsókn og fræða nemendur um eigin reynslu á sviði sjómennsku og fiskvinnslu.
Það voru glaðir nemendur sem mættu til skólasetningar í Sjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar í morgun og víst er að margir munu fylgjast með því hvaða árangri þetta athyglisverða tilraunaverkefni mun skila.