Gert er ráð fyrir að Sjávarútvegsskóli Síldarvinnslunnar taki til starfa í sumar en skólinn er tilraunaverkefni þar sem grunnskólanemendum verður gefinn kostur á að fræðast um fiskveiðar og fiskvinnslu. Skólinn verður settur í vikunni fyrir verslunarmannahelgi og mun kennslan fara fram dagana sitt hvoru megin við þá helgi. Kennsluefnið verður miðað við efstu bekki grunnskóla en að þessu sinni munu 8. bekkingar í Nesskóla (nemendur fæddir 1999) hafa forgang þegar nemendaskráning hefst.

Skólinn mun starfa í um tvær vikur (átta kennsludagar) og verður daglegur starfstími 3-4 klukkustundir. Undir lok sumra kennsludaga er ætlast til að nemendur sinni tilfallandi verkefnum undir stjórn verkstjóra. Námslaun verða greidd og verða þau sambærileg þeim launum sem greidd eru í Vinnuskóla Fjarðabyggðar.

Námsefnið verður fjölbreytt og kennarar verða margir. Í upphafi námsins verður sögu sjávarútvegs gerð skil og fjallað um veiðiskip, veiðarfæri og verkunaraðferðir á hverjum tíma. Lögð verður áhersla á tækniþróun og þau samfélagslegu áhrif sem sjávarútvegurinn hefur haft. Skólinn mun fá heimsóknir og meðal annars munu fyrrum sjómenn og starfsmenn í fiskvinnslu koma og segja frá reynslu sinni og þeim breytingum sem þeir hafa upplifað. Eins verður fjallað um Síldarvinnsluna, sögu hennar og starfsemi, og gerð grein fyrir einkennum nútíma sjávarútvegsfyrirtækja og mikilvægi  þeirra fyrir íslenskt samfélag.

Gæðamál verða einn af námsþáttunum og útskýrt hvernig síaukin áhersla er lögð á ferskleika hráefnis og gæði framleiðslu. Þá verða starfsmannamál í sjávarútvegsfyrirtækjum á dagskrá og greint frá hinum fjölbreyttu störfum sem þar eru unnin og hvernig unnt er að mennta sig til þeirra starfa.

Nemendur skólans munu heimsækja fiskiðjuver, fiskimjölsverksmiðju og frystigeymslur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og kynnast þeirri starfsemi sem þar fer fram auk þess sem þeir fá að reyna sig við einhver verkefni á vinnustöðunum undir leiðsögn reynds starfsmanns. Þá munu nemendur einnig fara um borð í veiðiskip Síldarvinnslunnar og fá fræðslu um störf sjómanna og þann tæknibúnað sem fyrirfinnst um borð í nútíma veiðiskipum. Eins munu nemendurnir kynnast störfum þeirra sem gera áætlanir um veiðar og vinnslu og fylgjast með fjárhagslegri afkomu starfseminnar.

Lögð verður áhersla á að skólastarfið verði fjölbreytt og lifandi og að skólahaldi loknu gefst nemendum tækifæri til að vinna verkefni sem tengist þeirri fræðslu sem veitt var. Er gert ráð fyrir að þar verði um hópverkefni að ræða og verða góð verðlaun veitt fyrir það verkefni sem þykir skara fram úr.

Áhugasamir nemendur geta skráð sig í Sjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar á heimasíðu fyrirtækisins (svn.is).  Nánari upplýsingar um skólastarfið veitir Margrét í síma 470-7015 (eftir 14. júní) eða