Árið 2013 hóf Sjávarútvegsskóli Síldarvinnslunnar starfsemi í Neskaupstað. Mikill áhugi reyndist vera fyrir skólastarfinu og voru nemendur 27 að tölu, 17 stúlkur og 10 piltar. Nemendurnir voru 14-15 ára að aldri og voru þeir á launum á meðan skólinn starfaði. Launin voru sambærileg laununum sem greidd voru í Vinnuskóla Fjarðabyggðar.
Sjávarútvegsskóli Síldarvinnslunnar var tilraunaverkefni en forsvarsmenn fyrirtækisins töldu mikilvægt að gefa ungmennum kost á að fræðast um sjávarútveg. Í skólanum var fjallað um gæða- og markaðsmál, starfsmannamál, menntun starfsfólks í atvinnugreininni og sögu sjávarútvegsins. Mikil áhersla var lögð á heimsóknir í sjávarútvegsfyrirtæki og fyrirtæki sem tengjast sjávarútveginum. Til dæmis var fiskiðjuver heimsótt og fiskimjölsverksmiðja og einnig netagerð, vélaverkstæði, rannsóknastofur o.fl. Þá var farið um borð í fiskiskip og allur búnaður um borð í þeim skoðaður ásamt því að fjallað var um starfsemina um borð.
Sjávarútvegsskólinn vakti strax mikla athygli og var mörgum ljóst að þörf væri fyrir slíkan skóla. Staðreyndin er sú að íslenska skólakerfið veitir litla innsýn í þessa grunnatvinnugrein þjóðarinnar og unnt er að alast upp í sjávarplássi án þess að öðlast þekkingu á veiðum og vinnslu. Því er nauðsynlegt að fræða unga fólkið um atvinnugreinina með öðrum hætti.
Víða kviknaði áhugi fyrir starfsemi Sjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar og strax árið 2014 var boðið upp á fræðsluna í allri Fjarðabyggð. Þá var skólinn nefndur Sjávarútvegsskóli Fjarðabyggðar. Árið 2015 var fræðslan síðan skipulögð um allt Austurland og var þá nafni skólans breytt og hann nefndur Sjávarútvegsskóli Austurlands. Árið 2016 hóf Háskólinn á Akureyri að annast skólahaldið og teygði skólinn þá anga sína til Norðurlands og reyndar víðar. Eftir að Háskólinn tók við skólanum hefur hann verið nefndur Sjávarútvegsskóli unga fólksins. Tekið skal fram að fljótlega varð Sjávarútvegsskólinn samvinnuverkefni með viðkomandi sveitarfélögum í gegnum vinnuskóla þeirra, en skólahaldið er að öllu leyti fjármagnað af fyrirtækjum í sjávarútvegi.
Umsjónarmaður skólans eftir að Háskólinn á Akureyri tók við starfseminni er Guðrún Arndís Jónsdóttir forstöðumaður Sjávarútvegsmiðstöðvar Háskólans á Akureyri. Guðrún upplýsir að Sjávarútvegsskólinn hafi stækkað mikið og einkum á síðasta ári. Á árinu 2018 voru 157 nemendur í skólanum en í fyrra voru þeir um fjögur hundruð. Þá hefur starfsstöðvum skólans fjölgað og á síðasta ári hófst starfsemi í Reykjavík, Vesturbyggð og á Sauðárkróki. Þá greinir Guðrún frá því að Sjávarútvegsskólinn hafi vakið athygli erlendis og nú sé ráðgert að koma á fót Fiskeldisskóla unga fólksins sem myndi byggja á sömu hugmyndafræði og sambærilegu skipulagi.
Það verður vart annað sagt en Sjávarútvegsskóli Síldarvinnslunnar, sem varð til árið 2013, hafi svo sannarlega skotið föstum rótum og haft áhrif víða til hagsbóta fyrir mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar.