: Nemendur Sjávarútvegsskóla Austurlands á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar BogasonNemendur Sjávarútvegsskóla Austurlands
á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar Bogason
Í dag er að ljúka kennslu í Sjávarútvegsskóla Austurlands á Seyðisfirði en þar hefur 22 ungmennum frá Seyðisfirði og Fljótsdalshéraði verið kennt þessa viku. Það var Síldarvinnslan sem kom sjávarútvegsskóla fyrst á laggirnar árið 2013 en síðan færði starfsemin út kvíarnar og árið 2016 hóf Sjávarútvegsmiðstöð Háskólans á Akureyri að annast skólahaldið á Austurlandi í samvinnu við sjávarútvegsfyrirtæki. Þá hóf Háskólinn að bjóða ungmennum upp á samsvarandi fræðslu á Norðurlandi árið 2017.
 
Kennarar í skólanum á Austfjörðum eru þær Guðný Jónsdóttir nemi í líftækni og Kristín Axelsdóttir nemi í sjávarútvegsfræðum. Segir Guðný að kennslan hafi gengið mjög vel. „Í skólanum hér á Seyðisfirði hafa verið 22 nemendur og næst liggur leiðin til Fáskrúðsfjarðar, þaðan til Neskaupstaðar og loks fá nemendur á Eskifirði og Reyðarfirði sína fræðslu. Áður en kom að kennslunni á Seyðisfirði höfðum við Kristín kennt á Akureyri og á Vopnafirði en annars eru aðrir sem annast kennsluna fyrir norðan,“ sagði Guðný.
 
Nemendur skólans á Seyðisfirði heimsóttu bæði fiskimjölsverksmiðju og fiskvinnslustöð Síldarvinnslunnar á staðnum og fræddust um starfsemina.