Á hvalaslóðum, Tómas Kárason, Gísli Víkingsson og Kári Kárason. Ljósm. Tómas Kárason

Sl. sunnudag fóru þeir bræður Kári og Tómas Kárasynir ásamt Gísla Víkingssyni hvalasérfræðingi á Hafrannsóknastofnun í athyglisverða flugferð. Þeir flugu frá Egilsstöðum og norður fyrir land í þeim tilgangi að kanna vísbendingar um loðnu. Kári er reyndur atvinnuflugmaður og Tómas er einnig flugmaður auk þess að vera skipstjóri á Beiti NK. Þeir bræður skiptust á að fljúga vélinni sem nýtt var til ferðarinnar.


Tíðindamaður heimasíðunnar hafði samband við Tómas og bað hann að segja stuttlega frá flugferðinni og að sjálfsögðu varð hann við því:

"Ferðin gekk í alla staði vel. Flognar voru 560 mílur á 4 tímum og 40 mínútum. Flogið var í 600-700 fetum á 120-130 hnúta meðalhraða. Vélin sem við vorum á var af gerðinni Diamond DA-42, fjögurra sæta, tveggja hreyfla hátæknileg flugvél sem er vel búin og unnt að fljúga í öllum veðrum. Við byrjuðum að fljúga í norðaustur, út fyrir landgrunnskantinn og síðan í norðvestur í átt að loðnuflotanum þar sem hann var að veiðum. Við flugum fram hjá skipunum og norður á 68°, síðan í vestur að 19° og þá í suður að 67° og 30‘. Það var síðan flogið í austur.“

Leitarskilyrði voru lengst af góð og sjólag var gott, en undir lok ferðar var tekið að skyggja og vinda. Við sáum ekkert af hval í ferðinni en vestast á svæðinu var talsvert mikið fuglalíf. Það höfðu fundist lóðningar á svæðinu vestast og staðfesti fuglalífið að mikið æti væri þar. Hafrannsóknaskip var síðan við loðnuleit enn vestar og þar er lóðað á loðnu.

Ég held að þetta sýni að loðnan sé að ganga að vestan en hún er ekki enn komin í verulega magni á það svæði sem skipin mega veiða á í troll. Ég held að þetta sé allt að koma", sagði Tómas að lokum.